Amazon biðst afsökunar

Starfsstöð Amazon í Bessemer í Alabama.
Starfsstöð Amazon í Bessemer í Alabama. AFP

Vefverslunarrisinn Amazon hefur beðið þingmann í Bandaríkjunum afsökunar eftir að hafa ranglega neitað að bílstjórar fyrirtækisins neyðist stundum til að losa þvag sitt í plastflöskur á ferðum sínum með vörur.

Ágreiningurinn hófst í kjölfar þess að demókratinn Mark Pocan frá Wisconsin, sem situr í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, sagði í tísti að laun upp á 15 dali á tímann þýddu ekki að viðkomandi vinnustaður væri framsækinn, þegar hann á sama tíma berst gegn myndun verkalýðsfélaga og neyðir starfsfólk til að létta á sér í vatnsflöskur.

Fyrirtækið svaraði fljótt fyrir sig. Í tísti í nafni þess sagði: „Þú trúir þó ekki í alvöru á þetta pissa-í-flöskur dæmi, er það? Ef það væri satt þá myndi enginn vinna fyrir okkur.“

Vissu að þetta viðgengist

Fjölmiðlar vestanhafs fóru þá af stað og bentu á að fjöldi starfsmanna Amazon hefði vissulega sagst hafa haft engan kost annan en að nota plastflöskur til að létta á sér.

Meðal annars var vísað til skjala innan úr fyrirtækinu sem sýndu að yfirmenn þess vissu af því að þetta viðgengist.

„Við skuldum Pocan þingmanni afsökunarbeiðni,“ sagði fyrirtækið svo í yfirlýsingu seint í gærkvöldi, rúmri viku eftir upphaflegu samskiptin á Twitter.

Ekki sáttur við svarið

Vandamálinu var þó lýst sem langvarandi og að það einkenndi allan geirann.

Pocan svaraði í dag og virtist ekki sáttur með nýjasta útspil Amazon.

„Byrjið á að viðurkenna ófullnægjandi þær starfsaðstæður sem þið hafið skapað fyrir alla ykkar starfsmenn, lagið það fyrir alla og að lokum, leyfið þeim að mynda verkalýðsfélag án þess að skipta ykkur af.“

Streitist á móti

Starsfmenn risastórrar stöðvar Amazon í Bessemer í Alabama kusu á mánudag um hvort þeir myndu stofna verkalýðsfélag.

Fyrirtækið hefur streist mjög á móti því. Niðurstöðurnar hafa enn ekki verið kynntar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert