Búist er við að metfjöldi fólks mæti í sýnatöku fyrir kórónuveirunni í Danmörku í dag.
Á morgun, þriðjudag, stendur til að létta á takmörkunum í landinu, opna hárgreiðslustofur, nuddstofur og annað sem Danir kalla frjálsa starfsemi (d. liberale erhverv). Þessi þjónusta verður þó aðeins í boði fyrir þá sem geta framvísað neikvæðri niðurstöðu úr kórónuveiruprófi sem ekki er eldra en 72 klukkustunda gamalt. Þeir sem hafa lokið bólusetningu eða fengið veiruna áður sleppa þó við þær kröfur.
Svokallaður kórónupassi verður þannig aðgöngumiði landsmanna að örlítið hefðbundnara samfélagi. Um þetta sömdu nær allir flokkar á danska þinginu í síðasta mánuði þegar langtímaáætlun um opnun landsins var kynnt. Markmiðið með passanum, sem hægt er að nálgast í smáforriti í símann, er vitanlega að hvetja sem flesta til að fara í sýnatöku.
Danir hafa ekki komist í klippingu með löglegum leiðum síðan fyrir áramót og skyldi því engan undra að fólk flykkist nú í sýnatöku. Á Norður-Jótlandi verður tekið á móti 18.000 manns í dag í sýnatöku, allt svokölluð PCR-próf þar sem niðurstaða fæst á nokkrum klukkutímum.
Danir hafa náð að bæla niður aðra bylgju faraldursins, sem náði hámarki skömmu fyrir jól þegar greind tilfelli veirunnar fóru yfir 4.000 á dag. Var þá skellt í lás og öllu, sem loka mátti, lokað. Um 600-700 tilfelli hafa greinst á dag síðustu vikuna.