Þorgerður Anna
Gunnarsdóttir skrifar frá Kaupmannahöfn
Fyrstu skref í enduropnun Danmerkur verða tekin í dag þegar fólki gefst að nýju kostur á að fríska upp á útlitið þegar þjónusta hárgreiðslu-, húðflúr- og sólbaðsstofa verður heimiluð að nýju. Langar raðir voru í skimanir í gær, annan í páskum, þar sem fólk verður að geta sýnt fram á neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi til þess að geta nýtt þjónustuna.
Þá verða ökuskólar opnaðir að nýju í dag, auk þess sem nemendur í elstu bekkjum grunnskóla og fyrstu bekkjum menntaskóla fá að byrja að mæta í skólann aðra hverja viku, en hingað til hafa þeir aðeins fengið staðkennslu einu sinni í viku, og það utandyra. Auk þessa verður heimild til staðkennslu í iðn- og háskólum ögn rýmkuð frá deginum í dag, en útfærsla sú er misjöfn milli skóla. Við Kaupmannahafnarháskóla fá nemendur með sérþarfir að snúa aftur í dag, aðrir ekki.
Enduropnun Danmerkur er tekin í skrefum og verður það næsta tekið á þriðjudag í næstu viku þegar verslunarmiðstöðvum og spilasölum, sem ekki eru stærri en 15 þúsund fermetrar, leyfist að opna að nýju. Veitingastaðir þurfa þó að bíða ögn lengur, eða til 21. apríl þegar heimilt verður að veita þjónustu á útisvæði. 6. maí er svo stefnt að því að veitinga- og kaffihús fái að opna dyr sínar að fullu. Það sama á við kvikmynda- og leikhús, auk þess sem fullorðnir mega koma saman til íþróttaiðkunar innandyra.