Gert hefur verið hlé á prófunum á bóluefni AstraZeneca á meðal barna í Bretlandi á meðan yfirvöld meta möguleg tengsl bóluefnisins við blóðtappa í fullorðnu fólki.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Oxford-háskóla, sem tók þátt í þróun bóluefnisins.
„Þrátt fyrir að engar áhyggjur séu uppi vegna þeirra prófana sem hafa verið gerðar á meðal barna munum við bíða eftir viðbótarupplýsingum frá MHRA (Lyfjastofnun Bretlands) í tengslum við skoðun hennar á sjaldgæfum tilfellum blóðtappa sem hafa greinst í fullorðnum, áður en við höldum áfram bólusetningum í þessum prófunum,“ sagði í yfirlýsingunni.
Lyfjastofnun Bretlands er ein af mörgum stofnunum víðs vegar um heiminn sem rannsaka upplýsingar frá AstraZeneca í tengslum við bólusetningar til að sjá hvort bein tengsl séu á milli bóluefnisins og sjaldgæfs tilfellis blóðtappa, eftir að greint var frá tilfellum í Noregi og á meginlandi Evrópu.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Lyfjastofnun Evrópu greina frá niðurstöðum sínum síðar í þessari viku.