Stjórnarskipti á Grænlandi

Kosningaplaköt fyrir Siumut í höfuðstaðnum Nuuk. Efstur er Kim Kielsen …
Kosningaplaköt fyrir Siumut í höfuðstaðnum Nuuk. Efstur er Kim Kielsen forsætisráðherra, sem þó er ekki formaður flokksins lengur eftir hallarbyltingu í fyrra. AFP

Stjórnarskipti verða á Grænlandi eftir þingkosningar sem fram fóru í gær. Vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IU) er sigurvegari kosninganna en flokkurinn bætti við sig fjórum þingsætum og fékk tólf menn kjörna og um 37,4% atkvæða.

Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut, sem hefur farið með stjórn landsins síðustu ár, bætti einnig við sig fylgi en lítillega. Flokkurinn fékk 30,1% atkvæða og tíu þingmenn kjörna, einum fleiri en í síðustu kosningum. Samstarfsflokkar Siumut í ríkisstjórn töpuðu hins vegar fylgi.

Erik Jensen, formaður Siumut, hefur óskað IA til hamingju með sigurinn og væntir þess að formaður IA leiði stjórnarmyndunarviðræður á næstu dögum. Þetta er aðeins í annað sinn frá því Grænland fékk heimastjórn árið 1979 sem Siumut stendur ekki uppi sem sigurvegari eftir kosningar í landinu.

Meðal helstu kosningamála í landinu voru námugröftur í Kuannersuit (eða Kvanefjeld upp á dönsku) þar sem fyrirtækið Greenland Minerals vill vinna sjaldgæfa málma úr jörðu, með úraníum sem aukaafurð. IA lagðist gegn námugreftrinum, en fráfarandi stjórnarflokkur Siumut var klofinn í afstöðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert