Fornleifafræðingar hafa fundið 3.000 ára gamla egypska borg sem lítur út fyrir „að hafa verið yfirgefin í gær,“ að því er segir á vef CNN.
Borgin, sem fékk nafnið „The Rise of Aten“, fannst grafin undir sandi á vinstri bakka Luxor í Egyptalandi, að sögn fornleifafræðingsins Zahi Hawass.
Borgin er frá valdatíma Amenhotep þriðja konungs, sem stjórnaði Egyptalandi milli 1391 og 1353 fyrir Krist, samkvæmt yfirlýsingu fornleifafræðinganna.
„Þetta var stærsta stjórnsýslu- og iðnaðarbyggð á tímum egypska heimsveldisins,“ sagði Hawass.
Fornleifafræðingar fundu hús á götum borgarinnar, heila veggi í allt að 10 feta hæð og herbergi með verkfærum fyrir daglegt líf. „Rétt eins og íbúarnir hefðu skilið verkfærin eftir í gær.“
Fornleifafræðingarnir fundu einnig stórt bakarí, „með ofnum og geymslum úr keramik,“ en stærð þess bendir til þess að það hafi verið notað til að koma til móts við „mjög mikinn fjölda starfsmanna“.
Þá fannst beinagrind manns sem var grafinn með handleggina til hliðar og reipi vafið um hnén sem þykir mjög merkileg greftrun.
„Uppgötvun þessarar týndu borgar er næstmikilvægasta fornleifauppgötvunin síðan grafhýsi Tútankhamuns fannst,“ sagði Betsy Bryan, prófessor í egypskum fræðum við Johns Hopkins-háskóla, í yfirlýsingu og bætti við:
„Uppgötvun hinnar týndu borgar mun ekki aðeins veita okkur sjaldgæfa innsýn í líf Forn-Egypta á þeim tíma þegar heimsveldið var sem ríkast, heldur mun hún líka hjálpa okkur að varpa ljósi á eina mestu ráðgátu sögunnar: af hverju ákváðu Akhenaten og Nefertiti að flytja til Amarna?“