Gagnrýnandi Pútin kyrktur

Nikolay Glushkov.
Nikolay Glushkov. AFP

Dómstjóri hefur úrskurðað að Nikolai Glushkov, sem hafði gagnrýnt forseta Rússlands, Vladímir Pútin, hafi verið kyrktur á eigin heimili. Þetta kemur fram á vef BBC.

Glushkov fannst látinn á eigin heimili í suðvesturhluta Lundúnaborgar í mars árið 2018. Sönnunargögn bentu til þess að andlát hans hefði verið látið líta út eins og sjálfsvíg.

Dómstjórinn Chinyere Inyama úrskurðaði að Glushkov hefði verið kyrktur en í meinafræðiskýrslu sagði að meiðslin „gætu samræmst hálstaki, beitt aftan frá og að árásarmaðurinn hefði verið á bak við fórnarlambið“. Enn hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.

Glushkov flúði frá Rússlandi eftir að hafa verið ásakaður um svik í starfi sínu sem forstjóri Aeroflot-flugfélagsins, og var honum veitt pólitískt hæli í Bretlandi árið 2010.

Árið 2017 var hann dæmdur í átta ára fangelsi af rússneskum dómstól fyrir að stela 87 milljónum punda frá flugfélaginu. Glushkov átti að mæta fyrir dómstól í London daginn sem hann fannst látinn.

Glushkov lést viku eftir að eitrað hafði verið fyrir fyrrum gagnnjósnaranum Sergei Skrípal og Júlíu dóttur hans í Salisbury.

Glushkov var einnig náinn vinur Boris Berezovsky, sem var hávær gagnrýnandi Pútíns, en hann fannst hengdur á heimili sínu í Berkshire árið 2013.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert