Fyrsti sumargesturinn í Hammerfest í Troms og Finnmark, nyrstu véum Noregs, er mættur á ströndina og vegur hátt í eitt tonn. Þar er á ferð óvenjulegur ferðalangur, gríðarmikill rostungur sem hefur gert sig heimakominn í Repparfjorden, skammt frá bænum, og þyrpast áhorfendur að dýrinu eins og flugur að ljósi.
Það var Bente Synnøve Olsen sem líklega gekk fyrst fram á dýrið skömmu fyrir páska og fljótlega kvisaðist það um Hammerfest, heimili um 11.500 manns, að sjaldséður gestur lægi í makindum við sjóinn í Repparfjorden því rostungar eru sjaldséðir á norska meginlandinu, sjást hins vegar mun oftar norður á Svalbarða.
„Ég hef séð hann forða sér út í sjóinn þegar fólk gerist of nærgöngult,“ segir Olsen sem þykir það leitt að dýrið fái ekki að vera í sólbaði í friði, enda ekki eins og gestkvæmt sé í Noregi þessa dagana þegar landamærin eru lokuð öðrum en íbúum landsins og örfáum hópum öðrum sem njóta undanþága, eða koma hreinlega syndandi eins og þessi gestur.
Audun Rikardsen líffræðingur spjallaði við norska ríkisútvarpið NRK um rostunga og tók bæjarbúum allan vara á að hætta sér of nálægt, rostungar gætu hæglega orðið illskeyttari en ísbirnir og líklega ekkert grín að mæta öskureiðum andstæðingi með 60 sentimetra tennur og allt að 1.200 kílógramma skrokk en svo þungt getur fullvaxið karldýr orðið, kvendýrið um 850 kíló.
„Rostungurinn er ef til vill háskalegasta heimskautaskepnan sem þú getur rekist á í vatni,“ segir líffræðingurinn, „hann er þó mun klunnalegri á landi. Hann hleypur ekki á eftir neinum en fólk ætti að halda góðri fjarlægð og sýna virðingu,“ segir hann enn fremur og bætir því við að fari hann að hreyfa sig eða gefa frá sér hljóð sé tímabært að færa sig fjær.
Ekkert sé óeðlilegt við að rostungur sofi í einn til tvo sólarhringa eftir að hafa verið á sundi svo það táknar að sögn líffræðingsins ekki að dýrið sé veikt eða illa haldið að það liggi sem dautt tímunum saman.
Norðmenn voru langt komnir með að útrýma rostungi, sem ber latneska heitið Odobenus rosmarus, með miskunnarlausum veiðum í 350 ár, þar til dýrið var friðað árið 1952. Eftir 70 ára friðhelgi hefur stofninn þó ekki náð sér almennilega og er dýrið enn á lista Norðmanna yfir tegundir í útrýmingarhættu.