Amazon hafði betur gegn verkalýðsfélagi

Amazon.
Amazon. AFP

Verslunarrisinn Amazon hafði betur gegn hópi aðgerðasinna í Bessemer í Alabama í Bandaríkjunum, sem hugðust stofna til fyrsta verkalýðsfélags starfsmanna í vöruhúsi fyrirtækisins. Alls greiddu 1.798 starfsmenn atkvæði gegn stofnun verkalýðsfélagsins en 738 með.

Niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar var beðið með nokkurri eftirvæntingu enda þótti hún gefa vísbendingar um það sem koma skyldi í stéttarfélagsvæðingu starfsmannanna. Fyrirtækið hefur varið háum fjárhæðum í að reyna að sannfæra starfsmenn sína um gagnsleysi verkalýðsfélaga og talið þeim trú um að það sé í raun í hag starfsmanna – ekki aðeins fyrirtækisins – að verkalýðsfélög komi ekki nálægt kjaraviðræðum.

Verkalýðsfélagið hefur sagt að það muni vefengja niðurstöðurnar og hefur sakað Amazon um að blanda sér í kosningarnar, til að mynda með því að ljúga að starfsmönnum um áhrif kosninganna á fundi sem öllum starfsmönnum var skylt að sækja. Þá þrýsti fyrirtækið á bandarísku póstþjónustuna að koma upp póstkössum innan fyrirtækisins til að betur væri hægt að fylgjast með atkvæðagreiðslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert