Ever Given ekki enn frjálst ferða sinna

Flutningaskipið Ever Given var fast í Súez-skurðinum dagana 23.-29. mars. …
Flutningaskipið Ever Given var fast í Súez-skurðinum dagana 23.-29. mars. Vandræði skipafélagsins eru rétt að hefjast. AFP

Þótt tekist hafi að losa flutningaskipið Ever Given úr Súez-skurðinum og umferð sé þar komin á fullt á nýjan leik eru vandræði skipafélagsins síður en svo úr sögunni. Raunar má segja að þau séu rétt að hefjast.

Yfirvöld í Egyptalandi hafa kyrrsett skipið og heimila því ekki að fara úr landi fyrr en eigendur samþykkja að greiða allt að einn milljarð bandaríkjadala í skaðabætur.

„Skipið verður hér þar til rannsókn er lokið og bætur hafa verið greiddar,“ sagði Osama Rabie, forstjóri Súez-félagsins, í viðtali við ríkismiðil Egyptalands á fimmtudag. Hann vonaðist til að samkomulag næðist sem fyrst.

Rabie nefndi ekki nákvæmlega þá upphæð sem yfirvöld óska í skaðabætur en hann hefur áður nefnt töluna einn milljarð dala. Það á að dekka kostnaðinn við björgunaraðgerðir, en einnig tapaðar tekjur vegna lokunar skurðsins.

Málaferli næstu árin

Súez-skurðurinn, sem er ein helsta skipaleið heims, var lokaður í sex daga undir lok marsmánaðar eftir að Ever Given festist og lokaði algjörlega fyrir umferð þar um. Um 12% af vöruflutningum heimsins fara um skurðinn og þegar mest lét biðu 450 skip við mynni skurðarins eftir því að geta siglt í gegn. Sumir skipstjórar tóku þá ákvörðun að sigla frekar lengri leiðina fyrir Góðrarvonarhöfða í Afríku.

Óvíst er hvernig egypsk yfirvöld reiknuðu sig niður á upphæðina einn milljarð dala, en samkvæmt útreikningum breska greiningarfyrirtækisins Refinitiv varð ríkissjóður Egyptalands „aðeins“ af 95 milljónum dala vegna lokunarinnar, peningar sem að miklum hluta skiluðu sér loks þegar skipin gátu siglt þar aftur um.

Þá er hins vegar ótalið tjón allra þeirra sem eiga hagsmuni af því að umferð gangi greitt um skurðinn; skipafélaga, ýmissa fyrirtækja og neytenda. Í fréttaskýringu New York Times segir að heildarvirði þess farms sem fer um skurðinn sé allt að 10 milljarðar dala á degi hverjum, eða sem nemur um 40% af landsframleiðslu Íslands á ári. Afhendingaráætlun fjölmargra fyrirtækja raskaðist vegna lokunarinnar og ýmis ferskvara fór til spillis.

Málaferli vegna uppákomunnar eru vís til að taka fleiri ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka