Bretinn Shreejah Laturia segir að hann hafi ekki séð tilgang með lífinu eftir að hafa misst konu sína og barn í bílslysi á Íslandi jólin 2018. Slysið varð á brúnni yfir Núpsvötn en Laturia missti stjórn á bílnum og ók út af brúnni. Sjö voru í bílnum.
Laturai er til viðtals á breska miðlinum MyLondon, en RÚV greindi frá fyrst íslenskra miðla.
Í viðtalinu segir hann að hann hafi vaknað á sjúkrahúsinu og spurt móður sína í sífellu hvar konan hans og börnin væru, en móðir hans hafði flogið til Íslands í kjölfar slyssins. Það hafi tekið hann langan tíma að samþykkja það sem gerst hafði. „Ég man að ég spurði hana hvað ég væri að gera á Íslandi,“ segir hann.
Stuttu fyrir slysið höfðu hann og eiginkona hans byrjað að hlaupa saman og meðal annars hlaupið sitt fyrsta hálfmaraþon. Laturia lýsir því að hann hafi byrjað að hlaupa aftur eftir slysið og það hafi hjálpað honum að takast á við sorgina enda líkir hann hlaupinu við hugleiðslu.
„Fyrst eftir slysið sá ég engan tilgang með lífinu eða að halda áfram. Það sem gerði þetta verra var sektarkenndin. Ég var jú við stýrið á bílnum,“ segir hann. Í niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að konan og barnið sem létust hafi ekki verið í bílbelti.