Lögreglumaðurinn hafi gripið vitlausa byssu

Tim Gannon svarar spurningum á blaðamannafundi í dag.
Tim Gannon svarar spurningum á blaðamannafundi í dag. AFP

Lögregluþjónninn sem skaut Daunte Wright í Minneapolis á sunnudag skaut af vopni sínu fyrir slysni að sögn Tim Gannon, lögreglustjórans í Brooklyn Center, úthverfi borgarinnar. Gannon segir að lögregluþjónninn, sem hefur verið sendur í leyfi, hafi ætlað að nota rafbyssu en hafi óvart gripið í skotvopn.

Lögregluþjónninn hrópaði „rafbyssa“ (e. Taser) þegar Wright, sem hafði verið stöðvaður af lögreglu fyrir umferðarlagabrot, gerði sig líklegan til að setjast aftur í bifreið sína. Lögregluþjónninn skaut Wright síðan með skotvopni með þeim afleiðingum að hann lést á sjúkrahúsi skömmu síðar. Myndskeið úr búkmyndavél lögregluþjónsins var sýnt á blaðamannafundi fyrr í dag. 

Hundruð komu saman og mótmæltu dauða Wright á sunnudagskvöld og beitti lögregla táragasi á mótmælendur. Ástandið í Minneapolis var eldfimt fyrir, en þar er nú réttað yfir lögreglumanninum fyrrverandi Derek Chauvin, sem er ákærður fyrir að hafa orðið George Floyd að bana í maí á síðasta ári. 

Frétt New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert