Breyti Úkraínu í „púðurtunnu“

Úkraínskir hermenn skammt frá borginni Marinka. Þeir hafa átt í …
Úkraínskir hermenn skammt frá borginni Marinka. Þeir hafa átt í átökum við aðskilnaðarsinna sem eru studdir af Rússum. AFP

Stjórnvöld í Moskvu hafa sakað Bandaríkin og aðrar NATO-þjóðir um að breyta Úkraínu í „púðurtunnu“ eftir að Vesturlönd lýstu yfir áhyggjum af því að Rússar væru að safna saman herliði við landamærin að Úkraínu.

„Bandaríkin og aðrar NATO-þjóðir eru vísvitandi að breyta Úkraínu í púðurtunnu,“ sagði Sergei Ryabkov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, í samtali við rússneskar fréttastofur.

Hann bætti við að vestrænar þjóðir væru að útvega Úkraínumönnum vopn í auknum mæli.

Jens Stoltenberg (til hægri) ásamt Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu.
Jens Stoltenberg (til hægri) ásamt Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu. AFP

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í morgun að Rússar yrðu að hætta „óréttmætri“ hernaðaruppbyggingu í kringum Úkraínu, á fundi sem hann átti með háttsettum erindrekum í Kænugarði.

„Rússland verður að hætta hernaðaruppbyggingu sinni í og í kringum Úkraínu, láta af ögrunum sínum og draga úr umsvifum sínum þegar í stað,“ sagði Stoltenberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert