Saksóknarar í Damörku hafa ákært þrjá Breta og þrjá Bandaríkjamenn fyrir að hafa svikið yfir 1,1 milljarð danskra króna, eða um 22 milljarða íslenskra króna, út úr ríkissjóði Danmerkur í gegnum þýskan banka.
Tveir breskir ríkisborgarar höfðu áður verið ákærðir vegna annars svikamáls þar sem 12,7 milljarðar danskra króna voru sviknir út úr ríkissjóðnum.
Saksóknarar telja að þessir sex sem núna hafa verið ákærðir hafi verið höfuðpaurarnir í svindlinu, að því er BBC greindi frá.
Ef þeir verða fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér allt að 12 ára fangelsi.
Málið tengist rannsókn á svokölluðum CumEx-skjölum. Þar hafði hópur alþjóðlegra blaðmanna birt gögn sem sýna að nokkrir af stærstu bönkum heims eru flæktir inn risavaxið fjár- og skattsvikamál, líklega það stærsta í sögunni.