21 árs háskólanemi í Bretlandi þróaði með sér hjartabilun eftir mikla orkudrykkjaneyslu, samkvæmt nýlegri tilviksrannsókn á sviði læknavísinda
BBC greinir frá.
Í tvö ár drakk ungi maðurinn fjóra hálfs lítra orkudrykki á dag. Eyddi hann 58 dögum á sjúkrahúsi, þar af nokkrum á gjörgæslu. Lýsti hann síðar þeirri reynslu sem miklu áfalli.
Áður en hann var lagður inn á spítala átti hann erfitt með andardrátt og hafði lést umtalsvert í um fjóra mánuði.
Læknar sem sinntu manninum veltu lengi fyrir sér einkennum hans og mátuðu greiningar en niðurstaða þeirra varð eitrunaráhrif á hjarta af völdum orkudrykkjaneyslu. Við greiningu var ungi maðurinn þegar kominn með hjarta- og nýrnabilun.
Maðurinn, sem kaus að koma ekki fram undir nafni en tók þátt í rannsókninni, var frá skóla í þrjá mánuði áður en hann var lagður inn á sjúkrahús.
„Þegar ég drakk fjóra orkudrykki á dag skalf ég oft og fann fyrir hjartsláttartruflunum, sem truflaði bæði einbeitingu mína í skólanum og við hversdagslegar athafnir,“ sagði maðurinn.
Þá fékk hann mígrenisköst þegar nokkur tími leið á milli orkudrykkja sem hafði aftur áhrif á hversdagsleg verk og getu hans til að sinna þeim, jafnvel göngutúr út í almenningsgarð gat reynst þrautin þyngri.