Grænlenski vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) kynnti í gærkvöldi nýja samsteypustjórn sem stýra á landinu eftir að gengið var til þingkosninga fyrr í mánuðinum. Þar fór flokkurinn með sigur af hólmi þegar hann hlaut 36,6% atkvæða.
Kosningarnar voru í raun þjóðaratkvæði um námavinnsluverkefnið í Kuannersuit-jarðlögunum sem fullyrt var að myndi leiða til fjölbreyttara athafnalífs í landinu og dreifðari tekjustofna.
Talsmenn vinnslunnar báru fyrir sig nauðsyn verkefnisins er landsmenn byggju sig undir breytta tíma samfara hlýnun andrúmsloftsins. Skipti sköpum að treysta undirstöður ríkissjóðsins í Nuuk ef Grænlendingar ætluðu að öðlast fullt sjálfstæði frá Dönum.
Flokkurinn, sem hlaut tólf sæti af samtals 31 á Grænlandsþingi, hefur myndað stjórn ásamt sjálfstæðissinnaða flokknum Naleraq, sem hefur á að skipa fjórum sætum.
Múte Egede, 34 ára leiðtogi IA, verður forsætisráðherra landsins og um leið sá yngsti í heiminum til að gegna því embætti.
Frjálslyndis- og íhaldsflokkurinn Atassut, sem hefur tvö sæti á þinginu, mun styðja stjórnina án þess þó að tilheyra henni.
Stjórnarflokkarnir nýju hafa náð samkomulagi um áætlun þar sem ráðist verður að helstu samfélagsvandamálum auk þess sem í stjórnarsáttmálanum er vikið að menntun, sjávarútvegi og loftslagsbreytingum.
Flokkurinn Siumut fór fyrir stjórninni sem varð undir í kosningunum, en flokkurinn hefur að hluta til skaðast af innanflokkserjum og átökum undanfarin ár. Hann fékk 29,4% atkvæða og 10 menn kjörna.
Það sem skildi stóru flokkana tvo fyrst og fremst að var hvort heimila bæri umdeilda risavinnslu fágætra jarðefna og úrans í hinu 56.000 manna landi. Eru áform þau í umhverfismati sem stendur. Talið er að Kuannersuit-jarðlögin geymi einhver efnismestu steinefnalög sem vitað hefur verið um á jörðinni.
Fágætu jarðlögin geyma 17 málma sem brúkaðir eru í allt frá snjallsímum til rafbíla og vopna. Hefur IA krafist þess að úranvinnslan verði stöðvuð með lögum en slíkt myndi í raun binda enda á verkefnið.
Andstæðingar vinnslunnar í Kuannersuit segja að hún feli í sér of margar umhverfislegar hættur, muni meðal annars skilja eftir sig geislavirkan úrgang. Að námuvinnslunni á Grænlandi stendur ástralska málmleitarfélagið Greenland Minerals sem er í eigu Kínverja.
Frá 2009 hafa Grænlendingar farið alfarið sjálfir með yfirráð auðlinda sinna. Þurfa þeir engu að síður að treysta á um 526 milljóna fjárhagsaðstoð frá Kaupmannahöfn á ári til að fjármagna sem svarar þriðjungi útgjalda ríkissjóðs.
Danir eru ekki andvígir sjálfstæði Grænlendinga en í þeirra höndum eru áfram utanríkis- og varnarmál landsins víðfeðma. Því leitar heimastjórnin í Nuuk leiða til að finna fjölbreyttari tekjustofna svo sem með auknum sjálfbærum fiskveiðum, ferðaþjónustu og landbúnaði.
Hefðbundnar fiskveiðar skila um 90% útflutningstekna Grænlands. Hernaðarlega mikilvæg lega landsins og víðtækar og miklar auðlindir í jörðu hafa vakið alþjóðlega athygli.