Viðræður um kjarnorkuáætlun Írana, sem eiga að miða að því að virkja aftur álíka samkomulag og náðist árið 2015, hefjast að nýju í Vín í dag. Stjórnvöld í Teheran greindu frá því í gær að þau hefðu hafið auðgun úrans þannig að það næði 60% hreinleika.
Ríkið, sem kallar sig íslamskt lýðveldi, tilkynnti áform um stóraukna auðgun úrans fyrr í vikunni eftir árás sem gerð var á kjarnorkustöðina Natanz. Hefur Íran kennt Ísrael um árásina.
Þessi þróun varpar skugga á viðræðurnar í Vín, sem eiga að endurvekja samkomulagið sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, náði að koma á árið 2015. Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti lét það niður falla fyrir nærri þremur árum.
Að viðræðuborðinu í dag munu koma fulltrúar Evrópusambandsins og Bretlands, Kína, Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Írans.
Skera á úr um hvaða þvingunum Bandaríkin eiga að aflétta og hvað Íran þurfi að gera til að standast aftur skilmála samkomulagsins.
Sendiherra Rússlands í Vín, Mikhaíl Úljanov, segir á Twitter að viðræðunum vindi hægt en stöðugt fram á við.