Grunaðir í Skripal-máli sakaðir um þátt í sprengingu

Mennirnir ganga undir nöfnunum Ruslan Boshirov og Alexander Petrov.
Mennirnir ganga undir nöfnunum Ruslan Boshirov og Alexander Petrov. AFP

Tékknesk yfirvöld hafa sakað rússnesku leyniþjónustuna um að hafa komið að sprengingu í skotfærageymslu í Tékklandi árið 2014. Átján starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Prag hefur verið vísað úr landi vegna þessa. Á meðal hinna grunuðu í málinu eru tveir menn sem talið er að hafi eitrað fyrir Skripal-feðginunum í Bretlandi 2018. 

Tveir létust í sprengingunni 2014. Lögreglan í Tékklandi hefur birt ljósmyndir af Alexander Petrov og Ruslan Boshirov. Lögreglan fullyrðir að mennirnir hafi verið í Tékklandi þegar sprengingin varð. Umrædd nöfn voru notuð af tveimur rússneskum leyniþjónustumönnum sem Bretland fullyrðir að hafi eitrað fyrir Skripal-feðginunum í Salisbury árið 2018. Af myndum tékknesku lögreglunnar að dæma er útlit fyrir að um sömu menn sé að ræða. 

Andrej Babis forsætisráðherra Tékklands ávarpar blaðamenn á laugardagskvöld.
Andrej Babis forsætisráðherra Tékklands ávarpar blaðamenn á laugardagskvöld. AFP

Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, segir að þjóðin verði að bregðast við upplýsingum sem beintengja rússnesku leyniþjónustuna við sprenginguna. Hann mun upplýsa Atlantshafsbandalagið og bandamenn innan Evrópusambandsins um nýjar vísbendingar sem bendi til þessa. Þá verður málið rætt á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna á mánudag. 

Á blaðamannafundi á laugardagskvöld sagði Babis að starfsmennirnir átján, sem talið er að starfi fyrir rússnesku leyniþjónustuna, hafi 48 klukkustundir til að yfirgefa Tékkland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka