Afhenda 100 milljónir skammta til viðbótar

AFP

Bóluefnaframleiðendurnir Pfizer og BioNTech tilkynntu til kauphallanna í New York og í Þýskalandi að þau myndu afhenda Evrópusambandinu 100 milljónir skammta til viðbótar við það sem þegar hafði verið tilkynnt. Þetta er í samræmi við áætlun sem undirrituð var af framkvæmdastjórn ESB og bóluefnaframleiðendunum í febrúar. Það þýðir að ríki ESB muni fá 600 milljónir skammta af bóluefninu Comirnaty sem framleitt ef af Pfizer-BioNTech.

Ísland er hluti af þessu samkomulagi sem og Noregur og greindi embætti landlæknis í Noregi, FTH, frá því í dag að Norðmenn mundu fá aukalega tæplega 1,2 milljónir skammta af bóluefninu. Ekki lægi fyrir hvort hluti af því væri meðal þess sem kom fram í síðustu viku eða um hreina viðbót að ræða samkvæmt frétt Aftenposten

Sænskir og danskir fjölmiðlar fjalla einnig um þetta en ekki sé ljóst á þessari stundu hvað þetta þýði marga aukaskammta til þeirra landa. 

Bóluefnið verður framleitt í lyfjaverksmiðjum BioNTech og Pfizer í Evrópu en stefnt er að því að afhenda ríkjum ESB 250 milljónir skammta á öðrum ársfjórðungi sem er fjórfalt meira en á fyrsta ársfjórðungi. 

Sjá nánar hér

Líkt og kom fram á mbl.is fyrir helgi þá er von á samtals 244.000 bóluefnaskömmtum Pfizer til Íslands í maí, júní og júlí. Þá fékkst staðfest að tvöfalt fleiri bóluefnaskammtar verða afhentir í júlí en áður var vænst.

Í maí berast 70.200 bóluefnaskammtar frá Pfizer, í júní 82.000 skammtar og í júlí megi gera ráð fyrir 92.000 skömmtum frá framleiðandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert