Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hvetur til þess að lögum verði breytt eftir að maður sem myrti gyðingakonu árið 2017 var dæmdur ósakhæfur vegna neyslu fíkniefna.
„Að ákveða að taka fíkniefni og sturlast á að mínu mati ekki að firra þig ábyrgð á saknæmu athæfi,“ segir Macron í viðtali við Le Figaro í dag. Hann telur rétt að Eric Dupond-Moretti dómsmálaráðherra leggi fljótlega fram frumvarp til breytinga á hegningarlögum.
Samtök gyðinga hafa harðlega gagnrýnt ákvörðun æðsta dómstigs Frakklands á miðvikudag þar sem Kobili Traoré var úrskurðaður ósakhæfur vegna morðsins á Sarah Halimi.
Halimi, var 65 ára þegar hún var drepin af nágranna sínum, Traoré, sem var 27 ára gamall á þessum tíma.
Traoré braust inn í íbúð hennar að kvöldi til 3. apríl 2017 og barði hana til óbóta áður en hann henti henni út um glugga á íbúðinni. Ekki er vitað hvort hún lést af völdum barsmíða eða fallsins af þriðju hæð.
Fram kom í fréttum franskra fjölmiðla að Traoré hafi kallað Allah Akbar (Guð er mikill) og farið með vers úr kóraninum áður en hann henti henni út um gluggann. „Ég hef drepið djöfulinn,“ á hann að hafa kallað á arabísku.
Við blóðrannsókn kom í ljós að hann hafði neytt mikils magns kannabis áður en hann framdi morðið. Traoré segir sjálfur að honum hafi ekki verið sjálfrátt og að hann glími við alvarleg andleg veikindi. Hann var hins vegar metinn sakhæfur við rannsókn dómkvaddra geðlækna á sínum tíma og ákærður fyrir manndráp árið 2018.
Traoré hefur verið vistaður á geðdeild frá morðinu og verður þar áfram. Það var niðurstaða æðsta dómstóls Frakklands að hann hafi verið með óráði og því ekki ábyrgur gjörða sinna.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Macron tjáir skoðun sína á málinu en hann gerði það einnig þegar niðurstaða undirréttar var sú að Traoré væri ósakhæfur. Macron var í kjölfarið harðlega gagnrýndur af dómstiginu og minntur á þrískiptingu ríkisvaldsins. „Það er ekki mitt að tjá mig um ákvörðun dómstóls,“ segir Macron í viðtali við Le Figaro í dag.
Hann segist aftur á móti vilja fullvissa ættingja og fjölskyldu fórnarlambsins sem og aðra gyðinga að hann styðji þau.
Gyðingar segja að niðurstaða dómstólsins geri gyðinga varnarlausari í Frakklandi á meðan lögmenn Halimi-fjölskyldunnar segjast vilja fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
Franskir gyðingar hafa ítrekað verið skotmark öfgamanna, einkum árið 2012, þegar íslamisti skaut þrjú börn og kennara við gyðingaskóla í Toulouse og árið 2015 þegar fernt var skotið til bana af liðsmanni Ríkis íslams í matvöruverslun gyðinga í París.