Verður fluttur á sjúkradeild

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Rússneska fangelsismálastofnunin segir í yfirlýsingu að Alexei Navalní, einn helsti andstæðingur forseta landsins, verði fluttur á sjúkradeild fyrir fanga. Í yfirlýsingunni kemur fram að líðan hans sé viðunandi. 

Navalní er í hungurverkfealli og hafa dóttir hans og stuðningsmenn lýst því að hann sé við dauðans dyr. Þau hafa krafist þess að læknar hans fái að hitta hann en ekki hefur verið fallist á þá beiðni. Navalní hefur verið í hungurverkfalli í þrjár vikur. Í yfirlýsingunni kemur fram að Navalní hafi fallist á að taka vítamín sem hluta af læknismeðferð. 

Í gær bað Dasha, dóttir Navalnís, um að föður hennar yrði veitt sú umönnun sem hann þarfnast.

„Leyfið læknum að hitta pabba,“ skrifaði Dasha í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter en hún er nemandi við Stanford-háskóla í Kaliforníu.

Navalní sneri aftur til Moskvu frá Þýskalandi í janúarmánuði. Í Þýskalandi hafði Navalní jafnað sig eftir að eitrað var fyrir honum, að sögn hans. Navalní telur að leynileg eining innan rússnesku njósnastofnunarinnar FSB hafi eitrað fyrir sér með taugaeitrinu novichok. Stjórnvöld í Mosvku segja það alrangt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert