Forseti Tsjad drepinn á vígvelli

Idriss Deby var forseti Tsjad frá 1990. Hann lést um …
Idriss Deby var forseti Tsjad frá 1990. Hann lést um helgina eftir átök við uppreisnarhópa í norðurhluta landsins. AFP

Idriss Déby, forseti Afríkuríkisins Tshad lést um helgina í átökum við uppreisnarmenn í norðurhluta landsins. Frá þessu greinir her landsins, en tilkynningin kemur eftir að bráðabirgðaniðurstöður forsetakosninga í landinu spáðu sigri Déby.

Í kjölfar andláts hans hefur ríkisstjórnin og þingið verið leyst upp og útgöngubann verið sett á í landinu auk þess sem landamærum þess hefur verið lokað.

Fram kemur í tilkynningunni að Déby hafi farið í fremstu víglínu átakanna til að hitta hermenn á vígvellinum og þar hafi hann látist „á vígvellinum.“

Mahamat Idriss Déby, 37 ára gamall sonur Idriss Déby eldri og fjögurra stjörnu hershöfðingi, mun leiða herráð sem ætlar sér að stýra landinu næstu 18 mánuði. Stefnt er að því að halda „frjálsar og lýðræðislegar“ kosningar í framhaldinu samkvæmt tilkynningu hersins.

Forsetakosningar fóru fram í landinu 11. apríl, en kosningabarátta Débý eldri hafði meðal annars gengið út á loforð um að koma á frið og reglu í landinu. Undanfarin ár hefur vaxandi óánægja verið með störf hans, ekki síst vegna stjórnunar á olíuauðlindum landsins.

Débý hafði stýrt landinu frá því árið 1990, en hann hafði verið vinveittur Frakklandi og vesturveldum í baráttu við islamska uppreisnarhópa.

Mahamat Idriss Déby, sonur forsetans, mun leiða herráð næstu 18 …
Mahamat Idriss Déby, sonur forsetans, mun leiða herráð næstu 18 mánuði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert