22 Covid-19 sjúklingar létust á indversku sjúkrahúsi í dag eftir að súrefniskútar þeirra tæmdust vegna leka.
Indverjar há erfiða baráttu við kórónuveiruna þessar vikurnar og er farið að bera á skorti á lækningatækjum.
Atvikið átti sér stað við Dr Zakir Hussain-sjúkrahúsið í borginni Nashik. Svo virðist sem súrefni hafi lekið úr súrefnistanki við sjúkrahúsið í hálftíma í morgun með þeim afleiðingum að lokað var fyrir streymið í súrefniskúta yfir 60 fárveikra sjúklinga.
Að sögn yfirvalda var lekinn stöðvaður innan hálftíma og er eðlilegt rennsli nú úr tankinum. Alls eru 170 sjúklingar með Covid-19 á sjúkrahúsinu og var hluti þeirra fluttur á aðrar stofnanir þegar þetta kom í ljós.
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, segir þetta skelfilegan atburð og hann sé miður sín vegna þeirra sem létust. Rannsakað verður hvernig þetta gat gerst.
Fyrir viku voru indverskir flugmenn fengnir til að fljúga með súrefni til sjúkrahúsa á þessu svæði þar sem birgðir voru á þrotum.
Forsvarsmenn sjúkrahúsa í höfuðborg Indlands óttast að þar styttist í súrefnisskort vegna fjölgunar nýrra smita í borginni.