Loforð um 200 milljón sprautur gæti raungerst

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Loforð Joes Bidens Bandaríkjaforseta, um að 200 milljón fullorðnir Bandaríkjamenn yrðu bólusettir á hans fyrstu 100 dögum í embætti, gæti raungerst í þessari viku. Fyrirhugað er að Biden haldi ræðu í tilefni þessa á næstunni þar sem hann mun tilkynna áfangann, segir ónafngreindur innanbúðarmaður í Hvíta húsinu við AFP.

Áfanginn næst þannig örfáum dögum á undan áætlun, en Biden mun hafa setið í embætti í 100 daga í lok næstu viku. Í kjölfar þess að hafa verið kjörinn forseti í nóvember síðastliðnum lofaði Biden upphaflega því að 100 milljón Bandaríkjamenn yrðu bólusettir gegn kórónuveirunni á hans fyrstu 100 dögum í embætti.

Þegar sá áfangi náðist hafði hann aðeins setið um 50 daga í embætti. Hann bætti þá um betur og lofaði að 200 milljónir yrðu bólusettar á hans fyrstu 100 dögum í embætti.

Bóluefni fyrir alla í maí

Þrátt fyrir að hvergi hafi fleiri látist vegna kórónuveirunnar en í Bandaríkjunum hefur þar náðst eftirtektarverður árangur í fjöldabólusetningum. Hærra hlutfall Bandaríkjamanna hefur nú verið bólusett en í Kanada og flestum ríkjum Evrópu, Íslandi þar á meðal.

Í maímánuði munu öll ríki Bandaríkjanna þurfa að hverfa frá öllum lögum og reglugerðum um forgangshópa vegna bólusetninga og munu sum ríki nú þegar hafa gert það. Það mun þá þýða að bólusetning standi öllum Bandaríkjamönnum til boða, óháð búsetu, aldri eða undirliggjandi sjúkdómum.

Embættismenn innan Hvíta hússins geta þó ekki hrósað happi enn, þar sem nýgengi kórónuveirusmita á landsvísu er á uppleið, t.a.m. í Michiganríki. Dánartíðni er þó enn á undanhaldi vegna þess hve vel hefur gengið að bólusetja eldra fólk og fólk í áhættuhópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert