Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna mun rannsaka vinnubrögð lögreglunnar í Minneapolis-borg í Bandaríkjunum og freista þess að upplýsa hvort vinnubrögð standist lög og stjórnarskrá landsins. Þetta kom fram í máli Merricks Garlands, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í dag, degi eftir að Derek Chauvin var sakfelldur fyrir morðið á George Floyd. BBC greinir frá.
Derek Chauvin er fyrrverandi lögreglumaðurinn sem þrýsti hnénu að George Floyd fyrir um ári og myrti hann. Morðið átti sér stað í Minneapolis og af stað fór gríðarleg bylgja mótmæla strax í kjölfarið, sem teygði úr sér um heimsbyggðina alla.
Garland segir að rannsókn dómsmálaráðuneytisins „muni ná yfir alla þætti lögreglunnar í Minneapolis; þjálfun starfsfólks, vinnubrögð yfirmanna, innra eftirlit og valdbeitingu við handtökur og yfirheyrslur“.
Einnig sagði Garland að rannsakendur myndu „kanna hvort meðferð lögreglu á þeim sem glíma við greinda hegðunarörðugleika sé ólögmæt og hvort virkni þeirra kerfa er varða ábyrgð einstakra lögreglumanna og eiga að koma í veg fyrir að lögregluvaldi sé beitt í andstöðu við landslög og stjórnarskrá“.
Garland sagði við sama tilefni að hann vissi fyrir víst að dómurinn yfir Chauvin í gær myndi ekki sjálfkrafa hafa í för með sér að kastljósi stjórnvalda yrði beint að kerfisbundnum vanda innan lögreglunnar í Minneapolis. Því þyrfti að ráðast í þá rannsókn sem dómsmálaráðuneytið ræðst í nú.