Hafa 60 tíma til stefnu

Gömul mynd af kafbátnum KRI Nanggala 402 sem nú hefur …
Gömul mynd af kafbátnum KRI Nanggala 402 sem nú hefur verið saknað í að verða sólarhring. AFP

Yfirvöld í Indónesíu hafa um 60 klukkustundir til stefnu til að bjarga 53 manna áhöfn kafbáts sem týndur er í Javahafi. Þá klárast súrefnisbirgðir í kafbátnum.

Ekkert hefur spurst til bátsins í rúman sólarhring, en hann er talinn hafa verið um 100 kílómetra norður af eyjunni Balí þegar hann hvarf af ratsjám. Sex herskip og þyrla eru notuð við leitina og koma um 400 manns að henni.

Skip hafa verið send til aðstoðar frá Singapúr og Malasíu auk þess sem Frakkar, Þjóðverjar, Ástralar og Bandaríkjamenn hafa boðið fram aðstoð sína.

Indónesísk herskip við herstöðina í Banyuwangi undirbúa leitaraðgerðir.
Indónesísk herskip við herstöðina í Banyuwangi undirbúa leitaraðgerðir. AFP

„Við þekkjum svæðið en það er mjög djúpt,“ segir Julius Widjojono, aðmíráll í indónesíska hernum, við AFP-fréttaveituna. Olíuleki sem uppgötvaðist á svæðinu gæti verið vísbending um hvað fór úrskeiðis, en gæti einnig verið skilaboð frá áhöfninni, samkvæmt upplýsingum frá hernum.

Varað hefur verið við því að kafbáturinn gæti verið mölbrotinn ef hann hefur fallið til botns, en sjórinn þar er allt að 700 metra djúpur.

Kafbáturinn týndi er einn fimm slíkra í eigu indónesíska hersins en hann var smíðaður á áttunda áratugnum og gerður upp árið 2012. Þetta er í fyrsta sinn sem indónesískur kafbátur týnist, en nokkur ár eru síðan það gerðist í Argentínu og fórust þá 44. Báturinn fannst ári síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert