Íslendingar þurfa ekki að dvelja í sóttkví við komuna til Danmerkur samkvæmt reglum sem tóku gildi þar í landi fyrir tveimur dögum ef þeir framvísa neikvæðu Covid-prófi og eru neikvæðir í skimun við komuna til landsins.
Ísland og nokkur héruð í Noregi eru undanskilin sóttkví við komuna til Danmerkur, að því er fram kemur í tilkynningu á vef danska utanríkisráðuneytisins.
Farið er eftir smitfjölda í löndum og því gæti staða Íslands breyst, fjölgi smitum hér á landi. Ísland er nú í gulum flokki.
Ef Ísland er skilgreint í appelsínugulum flokki samkvæmt smittölum má ferðast með lögmætu erindi til Danmerkur og krafa er gerð um framvísun neikvæðrar skimunar og skimunar við komu, ásamt sóttkví, en smittölur eru uppfærðar vikulega.