Segja faraldrinum lokið í Bretlandi

Faraldrinum er svo gott sem lokið í Bretlandi, að mati …
Faraldrinum er svo gott sem lokið í Bretlandi, að mati sumra vísindamanna. AFP

Bólusetningarherferð breskra stjórnvalda hefur haft í för með sér að vísindamenn segja kórónuveirufaraldrinum lokið þar í landi. Ný gögn sýna að bólusetningar þar í landi hafi minnkað smittíðni um allt að 90%. Þetta kemur fram í frétt Telegraph um málið.

Umrædd gögn eru grunnur nýrrar rannsóknar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu, þar sem rannsakað er hvort bólusetningarherferðir geti lækkað smittíðni meðal íbúa einstakra ríkja. Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta að svo sé.

Ekki lengur heimsfaraldursástand

Sarah Walker, prófessor í heilbrigðistölfræði og farsóttarfræðum við Oxford-háskóla og forstöðumaður Covid-19-deildar bresku hagstofunnar, segir að ástandið í Bretlandi megi nú skilgreina sem staðbundið ástand (e. endemic situation), ekki sem heimsfaraldursástand (e. pandemic situation).

Þá meinar hún að kórónuveiran sé nú aðeins með litla fótfestu í samfélaginu, komist skammt milli fólks og sé almennt viðráðanlegri en hún áður var.

Rannsóknin byggir á 373.402 kórónuveirusýnum, sem tekin voru frá 1. desember í fyrra til 3. apríl á þessu ári. Samkvæmt rannsókninni eru þeir sem þegið hafa einn skammt af bóluefni Pfizer eða AstraZeneca mun ólíklegri til þess að hvort tveggja smitast af kórónuveirunni og fá sjúkdómseinkenni þremur vikum eftir að bólusetning átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert