Senda frá sér neyðarkall – súrefni á þrotum

Súrefnisbirgðir að minnsta kosti tveggja sjúkrahúsa í höfuðborg Indlands, Nýju-Delí, eru á þrotum og hefur neyðarástandi verið lýst yfir. Tæplega 16 milljónir Indverja eru með staðfest smit og fjölgar stöðugt dag frá degi. Í dag var greint frá því að 332.730 einstaklingar hafi verið greindir með Covid-19 þar síðasta sólarhringinn og er þetta annar dagurinn í röð þar sem nýtt met er slegið hvað varðar fjölda nýrra smita í einu landi. Jafnframt hafa aldrei jafn margir dáið þar á sólarhring af völdum kórónuveirunnar. 

Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, fundar í dag með ráðherrum og framleiðendum súrefnis en heilbrigðisyfirvöld í Nýju-Delí hafa sent frá sér neyðarkall. Í Twitter-færslu Max Healthcare í dag undir yfirskriftinni SOS kemur fram að súrefnisbirgðir tveggja sjúkrahúsa sem þau reka í borginni séu á þrotum en alls eru 700 sjúklingar á þessum tveimur sjúkrahúsum. Fleiri sjúkrahús í borginni hafa sent frá sér svipaðar tilkynningar þar sem ljóst er að súrefnisbirgðir endast ekki út daginn.

13 Covid-19-sjúklingar létust í eldsvoða á sjúkrahúsi í úthverfi Mumbai í nótt en ekki er vitað um eldsupptök. Fyrr í vikunni létust 22 Covid-19-sjúklingar á öðru sjúkrahúsi vegna súrefnisskorts. 

Mikla fjölgun nýrra smita á Indlandi má helst rekja til fjölmennra trúarhátíða og stjórnmálasamkoma að undanförnu þar sem ekki var gætt að sóttvörnum. 

Frétt BBC

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert