Faraldurinn í miklum vexti á Indlandi

Skortur á súrefni til að gefa sjúklingum er fyrirséð vandamál …
Skortur á súrefni til að gefa sjúklingum er fyrirséð vandamál á Indlandi. Tölur um sjúklinga og dauðsföll eru talin vanmetin þar sem fjöldi íbúa kemst aldrei á sjúkrahús. AFP

Á sama tíma og bólusetningar eru í fullum gangi í Evrópu, Bandaríkjunum og flestum vestrænum löndum er staðan í baráttunni gegn faraldrinum mun verri víða annars staðar. Á síðustu dögum hefur faraldurinn komið hvað harðast niður í Indlandi þar sem óeftirsóknarverð met um fjölda smita og látinna eru nú slegin daglega, öll sjúkrahús eru pakkfull og fyrirséður er skortur á súrefni á sjúkrahúsum landsins.

Á síðustu þremur dögum hefur greinst um ein milljón Covid-19-smita í Indlandi og heildarfjöldi smita sem greinst hafa í landinu nú kominn upp í 16,2 milljónir. Aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri smit greinst frá upphafi faraldursins. Tilkynnt voru 2.624 dauðsföll í landinu vegna faraldursins í dag, en það er mesti fjöldi dauðsfalla hingað til. Samtals hafa 190 þúsund manns látist í landinu vegna faraldursins. Þessar tölur segja þó aðeins hálfa sögu, því talið er að stór hluti sjúklinga sé annaðhvort ekki greindur eða komist jafnvel ekki á sjúkrahús.

Smit og dauðsföll talin mun fleiri

Þannig hefur The Guardian eftir lækni í Birbhum-héraðinu að þótt hann tilkynni öll smit og andlát vegna Covid-19 á sjúkrahúsinu geri hann ráð fyrir að fjöldinn sé fimm- til tífalt meiri þar sem fæstir á svæðinu komist yfir höfuð á sjúkrahúsið.

Sérfræðingar áætla að þrátt fyrir þennan mikla fjölda smita síðustu daga verði toppnum ekki náð fyrr en eftir um þrjár vikur.

Yfirvöld hafa verið mikið gagnrýnd fyrir að hafa ekki nýtt síðustu mánuði í frekari undirbúning fyrir aðra bylgju faraldursins sem nú hefur raungerst. Þá hafi lítið verið gert til að stemma stigu við frekari útbreiðslu veirunnar og yfirvöld gefið grænt ljós á stóra viðburði, svo sem Kumbh Mela, trúarhátíð hindúa, sem fram fór við fljótið Ganges og hundruð þúsunda tóku þátt í. Þá fóru einnig nýlega fram héraðskosningar í nokkrum héruðum landsins og kosningaviðburðir í aðdraganda þeirra.

Ekki er gert ráð fyrir að núverandi bylgja nái toppi …
Ekki er gert ráð fyrir að núverandi bylgja nái toppi sínum fyrr en eftir um þrjár vikur. Þrátt fyrir það hafa síðustu dagar verið metdagar í bæði fjölda smita og dauðsfalla. AFP

Súrefnisbirgðir í takmörkuðu magni

Stjórnvöld á Indlandi hafa undanfarna daga barist við að koma súrefnisbirgðum og lyfjum til þeirra svæða sem hafa orðið verst úti. Hafa meðal annars verið skipulagðar sérstakar „súrefnishraðlestir“ þar sem 30 þúsund lítrar af súrefni eru fluttir með hverri lest. Heilbrigðisyfirvöld m.a. í Lucknow, sem er ein þeirra borga sem hafa orðið hvað verst úti, sögðu að súrefnisskammtur sem barst til borgarinnar myndi aðeins duga í hálfan dag.

Þá hefur indverski flugherinn flutt súrefnistanka til þeirra staða í landinu sem verst hafa orðið úti.

Flýja frá borgum til sveita

Til að forðast faraldurinn hafa fjölmargir íbúar landsins, sem höfðu flutt til stórborganna í leit að vinnu, ákveðið að fara aftur til sveitaþorpa eða minni bæja á landsbyggðinni þaðan sem þeir eru ættaðir. Þetta hefur magnað upp faraldurinn á landsbyggðinni, þar sem einhverjir þeirra sem snúa til baka eru smitaðir og hafa smitað út frá sér þegar þeir koma til bæjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert