Fundu 1.500 ára gamlan ránsfeng

Keltneska handfangsfestingin, sem þeir Korstad-bræður og Håkon Beistad fundu á …
Keltneska handfangsfestingin, sem þeir Korstad-bræður og Håkon Beistad fundu á akri í Stjørdal um síðustu helgi og er líklega 1.500 ára gamall ránsfengur víkinga, er keimlík sams konar grip sem fannst í Ásubergsskipinu sem grafið var upp skammt frá Tønsberg í Suðaustur-Noregi árið 1904. Ljósmynd/Håkon Beistad

Fornleifafræðingar í Þrændalögum í Noregi segja fund þriggja bræðra, þeirra Jørgen, Joakim og Preben Korstad, og vinar þeirra Håkon Beistad einstakan þar í fylkinu og ákaflega sjaldgæfan í Noregi, hér sé kominn fjórði gripurinn af þessu tagi sem vitað sé til að fundist hafi í öllu landinu.

Það sem bræðurnir og Beistad fundu á akri í Stjørdal, rúma 30 kílómetra austur af Þrándheimi, er keltneskur skrautgripur, festing fyrir handfang á fötu eða ker, talinn um 1.500 ára gamall, og að mati fornleifafræðinga líkast til hluti ránsfengs eða þýfis víkinga sem gert hafi strandhögg á Írlandi og tekið gripinn með sér þaðan, en svipaður hlutur var í Ásubergsskipinu sem fannst við Tønsberg árið 1904.

Fjórði gripur af þessu tagi í Noregi

„Þetta er einstakur fundur,“ segir Lars Forseth, fornleifafræðingur sem starfar hjá fylkinu Þrændalögum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Þetta líkist einhvers konar búdda-líkneski en hefur engin tengsl við búddisma. Þetta er líkast til frá Írlandi eða Skotlandi og hefur verið haft með til Noregs sem þýfi. Nú verð ég að gera fyrirvara þar sem ég hef aðeins séð hlutinn á myndum, en þetta líkist mjög hlutnum sem fannst í Ásubergsskipinu,“ segir Forseth.

Hér má sjá keltnesku handfangsfestinguna sem fannst í Ásubergsskipinu og …
Hér má sjá keltnesku handfangsfestinguna sem fannst í Ásubergsskipinu og talin er frá 7. eða 8. öld. Þótt búddískur andi virðist þarna svífa yfir vötnum sýnir líkneskið mann sem hefur verið fórnað að keltneskum sið, líkaminn þurrkaður og stillt upp í sitjandi stellingu með beint bak. Eftir dauðann fékk hinn látni það hlutverk að færa andaheiminum skilaboð frá lifendum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Grzegorz Wysocki

Aina Heen Pettersen, fornleifafræðingur á Vísindasafni Tækni- og náttúrufræðiháskólans í Þrándheimi (NTNU), sem nú hefur fengið festinguna afhenta, segir hana tilheyra írsku bronskeri sem hægt hafi verið að hengja upp, til dæmis í loft. „Upprunalega voru tvær eða þrjár festingar af þessu tagi á kerjunum og þetta er mjög sjaldgæfur fundur, sá fyrsti í Þrændalögum og fjórði gripurinn af þessu tagi sem finnst í Noregi,“ segir Pettersen.

Bræðurnir Korstad og vinur þeirra, Beistad, voru við leit á akrinum með málmleitartæki sín um síðustu helgi þegar þeir fundu gripinn, en þeir kveðast einnig hafa fundið mynt frá 9. öld, upprunna í Mið-Austurlöndum, og eru reyndar engir byrjendur í fornleifarannsóknum sínum, árið 2017 fundu þeir gripi úr bronsi sem taldir eru allt að 3.000 ára gamlir, 24 axarblöð, spjótsodd, hnífa og hlut sem líklega er brot úr bronslúðri, allt frá yngri bronsöld, um það bil 1100 – 500 f. Kr.

Hluti af gripunum sem bræðurnir fundu árið 2017 og taldir …
Hluti af gripunum sem bræðurnir fundu árið 2017 og taldir eru allt að 3.000 ára gamlir, frá yngri bronsöld. Þarna má sjá spjótsoddinn og nokkur axarblaðanna. Ljósmynd/Jørgen Korstad

„Við áttuðum okkur ekki á því hvað þetta var í fyrstu,“ segir Jørgen Korstad um keltneska gripinn sem þeir fundu nú um helgina. „Þetta var notað á keltneskar fötur og er líklega frá árabilinu 500 til 700,“ bætir hann við og kveður myndskreytingu á gripnum sýna mannfórn, eins og myndir á keltnesku festingunni sem fannst í Ásubergsskipinu fyrir rúmri öld. Á henni má sjá manneskju með krosslagða fætur og krosstákn á brjósti.

Fjölgar í „málmleitarklúbbum“

„Það er sagnfræðiáhuginn sem drífur okkur áfram og við finnum margt sem segir okkur sitthvað um söguna hér í Stjørdal,“ segir Korstad og bætir því við að þar í dalnum hafi verið höfðingjasetur á járnöld. „Margir þeirra sem héldu til þinghalds á Frostaþingi komu frá Stjørdal. Hér er líka mikið um hellaristur, allt frá Hegra og niður til Skatval, og við gerðum stóruppgötvun muna frá bronsöld hér árið 2017. Hér bjó mun fleira fólk en áður var talið,“ segir Jørgen Korstad að lokum.

Fjölmiðlafólk skoðar bronsgripina á Vísindasafni Tækni- og náttúrufræðiháskólans í Þrándheimi …
Fjölmiðlafólk skoðar bronsgripina á Vísindasafni Tækni- og náttúrufræðiháskólans í Þrándheimi (NTNU) árið 2017. Ljósmynd/Vísindasafn NTNU/Trond Sverre Kristiansen

Áhugi á forngripaleit með málmleitartækjum hefur stóraukist um allan Noreg síðustu ár, félögum í svokölluðum málmleitarklúbbum (n. detektorklubber) snarfjölgað auk þess sem málmleitartæki seljast sem heitar lummur.

Í ágúst í fyrra ræddi mbl.is við Vegard Høystad-Lunna í Ringsa­ker í Inn­land­et-fylki norður af Ósló sem þá hafði nýlega fundið 1.200 ára gamalt sverð á akri nokkrum, en Høystad-Lunna, sem starfar við birgðahald á skrifstofutíma, gengur um bleika akra og slegin tún með málmleitartæki sitt þegar skyldum vinnu og uppeldis sleppir.

„Ætli þetta sé ekki bara verk­legi hlut­inn af sagn­fræðiá­hug­an­um mín­um, ég er með barnið mitt aðra hverja viku og vinn fulla vinnu svo þetta er mín leið út úr hvers­dag­sam­str­inu,“ sagði Høystad-Lunna við mbl.is.

Håkon Beistad í forgrunni en að baki honum hvíla þeir …
Håkon Beistad í forgrunni en að baki honum hvíla þeir Korstad-bræður, Jørgen, Joakim og Preben, lúin bein á akrinum í Stjørdal í Þrændalögum þar sem þeir segja höfðingjasetur hafa verið á járnöld og þaðan verið riðið til þinghalds á Frostaþingi, einu fjögurra lögþinga Noregs til forna, en hin voru Borgarþing, Eiðsifjaþing og Gulaþing. Ljósmynd/Håkon Beistad

NRK

NRKII (bronsgripirnir árið 2017)

NRKIII (aldrei fleiri í málmleit)

Bladet (greindi fyrst frá – læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert