Líta á Sýrland sem öruggt land

AFP

Sýrlenskir flóttamenn sem hafa fengið tímabundið dvalarleyfi í Danmörku fá ekki allir framlengingu og er gert að snúa aftur heim með góðu eða illu. Dönsk yfirvöld segja að ástandið þar hafi batnað mjög og því öruggt fyrir fólk að snúa aftur heim. Ekkert annað ríki í Evrópusambandinu hefur komist að sömu niðurstöðu og Danmörk að því er fram kemur í frétt Guardian og New York Times. 

Aya Abu-Daher.
Aya Abu-Daher. Af Twitter Syrian Campaign

„Ég heiti Aya Abu Daher og ég er sýrlenskur flóttamaður í Danmörku,“ segir í bréfi sem Daher hefur sent frá sér. Hún kom fram í danska sjónvarpinu í byrjun apríl og lýsti aðstæðum sínum og fjölskyldunnar. Daher varð tvítug nú í apríl en hún var 14 ára gömul þegar hún flúði ásamt fjölskyldunni frá Damaskus. Ástæðan var herkvaðning bróður hennar sem flúði land. Í kjölfarið tók við áreitni af hálfu leyniþjónustunnar í garð þeirra í fjölskyldunni sem enn voru í Sýrlandi. Þegar svæðið á bak við skólann hennar var sprengt upp ákvað fjölskyldan að flýja land því þrátt fyrir að flóttinn til Evrópu væri hættulegur þá væri enn hættulegra að vera áfram í Sýrlandi. 

Völdum rangan stað

„Þannig að við fórum í gegnum Tyrkland og síðan á björgunarfleka þaðan í þeirri von að koma til lands þar sem við gætum verið örugg. Nú sé ég að við völdum rangan stað. Danmörk er eina land Evrópu sem lítur á hluta Sýrlands sem friðsæla og örugga – og vill þvinga flóttafólk eins og mig þangað aftur þar sem dauðinn bíður okkar undir harðneskju einræðisstjórnar Assads,“ segir hún. 

Fjölskylda þessarar stúlku heldur til í yfirgefnum skóla í bænum …
Fjölskylda þessarar stúlku heldur til í yfirgefnum skóla í bænum Binnish í Idlib. Myndin er tekin í mars 2021. AFP

Að sögn Daher var þeim tjáð að ef þau lærðu tungumálið ynnu fyrir sér gætu þau búið í Danmörku. „Ég elskaði Danmörku en nú vilja yfirvöld sundra fjölskyldunni. Bróðir minn sem flúði herkvaðningu Assads má vera áfram í Danmörku en ég, mamma og pabbi höfum fengið tvo valkosti, annaðhvort að snúa til Sýrlands sjálfviljug eða vera flutt í brottvísunarbúðir, sem minna á fangelsi. Ég veit ekki einu sinni hvort ég geti lokið prófunum mínum þar,“ segir Daher. 

Skóli í þorpinu Kansafra. Myndin er tekin í mars 2021.
Skóli í þorpinu Kansafra. Myndin er tekin í mars 2021. AFP

New York Times fjallar um mál Ghalia al-Asseh sem hóf nýverið nám í efnafræði og líftækni við Tækniháskóla Danmerkur þegar henni var gert að mæta í viðtal hjá Útlendingastofnun. Þar var hún ítrekað spurð út í dönskukunnáttu en hún talar reiprennandi dönsku. Hversu vel henni hafi gengið að aðlagast en al-Asseh, sem er 27 ára gömul, hefur búið í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni síðan 2015 er þau flúðu frá Sýrlandi.

Viðtalið fór fram í febrúar og þar var henni tjáð að ástandið í Damaskus hefði batnað til muna og það væri öruggt fyrir hana að snúa til baka. Al-Asseh hefur nú verið synjað um framlengingu dvalarleyfis en fjórir bræður hennar og foreldrar mega aftur á móti vera áfram. Svipaða sögu hafa um 200 aðrir Sýrlendingar í Danmörku að segja. Meðal þeirra eru menntaskóla- og háskólanemar, flutningabílstjórar, verksmiðjufólk, verslunareigendur og sjálfboðaliðar hjá mannúðarsamtökum. 

Takmörkuð uppbygging og 230% verðbólga

Frá borginni Ariha.
Frá borginni Ariha. AFP

Eftir tíu ára borgarastyrjöld hefur Bashar al-Assad náð völdum í nánast öllu Sýrlandi og aðeins geisa harðir bardagar í norðurhluta landsins. Samt sem áður er ástæðan fyrir því að mótmælin hófust í Sýrlandi í mars 2011 enn í gildi – sérsveitir lögreglu. Sérsveitarmenn hafa handtekið, pyntað og látið yfir 100 þúsund einstaklinga hverfa síðan stríðið braust út. Gerræðislegar handtökur eru algengar á þeim svæðum sem áður voru undir yfirráðum uppreisnarmanna samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindavaktinni, Human Rights Watch.

Ástandið er hvergi gott og lítið sem ekkert byggt upp á svæðum sem lögðust nánast í rúst. Þjónusta eins og rafmagn og rennandi vatn er mjög takmörkuð og frá því gjaldmiðill landsins féll í fyrra hefur matvöruverð hækkað um 230%.

Bashar al-Assad hefur náð völdum í nánast öllu Sýrlandi.
Bashar al-Assad hefur náð völdum í nánast öllu Sýrlandi. AFP

Einhverjir þeirra sem hafa verið sviptir dvalarleyfi hafa verið vistaðir í brottvísunarbúðum þar sem þeir fá hvorki að vinna né stunda nám. Eins er heilbrigðisþjónusta þar af skornum skammti. Í flestum tilvikum eru sýrlenskir karlmenn ekki sendir úr landi þar sem yfirvöld staðfesta hættuna á að þeir verði kvaddir í herinn við heimkomuna. Heldur er meirihluti þeirra eldra fólk og konur. Foreldrar Mahmoud al-Muhammed, 19 ára, eru að nálgast sextugt. Þau hafa fengið synjun á framlengingu en hann fær að vera áfram í Danmörku. 

„Ekkert annað land í Evrópu hefur tekið upp þessa stefnu,“ segir Niels-Erik Hansen, lögmaður sem hefur sérhæft sig í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, í samtali við AFP-fréttastofuna. Við síðustu þingkosningar kynnti Jafnaðarmannaflokkur Danmerkur, undir forsæti Mette Frederiksen, nýjar hugmyndir varðandi stöðu innflytjenda. Hún er nú forsætisráðherra Danmerkur. 

Frá Rød­by haustið 2015 en Danir hertu mjög eftirlit á …
Frá Rød­by haustið 2015 en Danir hertu mjög eftirlit á landamærunum þegar fjöldi flóttamanna kom til Evrópu frá Sýrlandi. AFP

Aya Abu-Daher er skjólstæðingur Hansen og í viðtali við DR spurði hún dönsku þjóðina: „Hvað gerði ég rangt?“

Hún er framúrskarandi nemandi að sögn rektors menntaskólans sem hún stundar nám í og taka samnemendur hennar í Nyborg þátt í baráttunni með henni. 

„Þegar þú ert í brottvísunarbúðum máttu hvorki vinna né læra og færð þrjár máltíðir á dag. Í raun og veru er þér haldið þar þangað til þú skrifar undir pappíra um að þú farir af fúsum og frjálsum vilja til Sýrlands,“ segir Hansen.

UNHCR lýsir áhyggjum af stöðunni í Danmörku

Nú eru um 35.500 Sýrlendingar búsettir í Danmörku og kom rúmlega helmingur þeirra til landsins árið 2015 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Danmerkur. 

Fyrir skömmu lýsti Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) áhyggjum yfir ákvörðun danskra stjórnvalda. Ekki sé hægt að fallast á það með dönskum yfirvöldum hver staðan er í Sýrlandi.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa fordæmt ákvörðun danskra yfirvalda. Lisa Blinkenberg sem starfar hjá samtökunum í Danmörku segir að Danir sendi stöðugt frá sér merki um að þeir vilji ekki sjá hælisleitendur koma til landsins og um leið hræða þeir þá í burtu og senda til heimalandsins þrátt fyrir að það sé alls ekki öruggt. 

„Danmörk er ekki bara versti staðurinn í Evrópu heldur hefur landið ekki sýnt samstöðu með öðrum ríkjum Evrópu með því að neita að taka þátt í að axla ábyrgð,“ segir Hansen.

Ráðherra flóttamannamála, jafnaðarmaðurinn Mattias Tesfaye, segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé að virka og hann muni ekki bakka með hana. Það gerist ekki, segir Tesfaye. Stefna Danmerkur er að þar séu engir hælisleitendur og hefur landið boðið sérstakar greiðslur til þeirra sem snúa sjálfviljugir heim. Í fyrra samþykktu 137 Sýrlendingar þetta boð.  

Guardian

New York Times

DR

Politiken

BT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert