Merkel verst gagnrýni vega lokana

Angela Merkel kanslari Þýskalands.
Angela Merkel kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, verst nú harðlega gagnrýni á frumvarp sitt um harðar sóttvarnaaðgerðir í öllu Þýskalandi, þar á meðal útgöngubann og skólalokanir.

Víða í Evrópu er sóttvarnaaðgerðum aflétt um þessar mundir. Á sama tíma er tekist á um frumvarp til laga í stærsta hagkerfi Evrópu, Þýskalandi, sem heimilar verulega hertar aðgerðir og kallast í daglegu tali neyðarhemillinn

Frumvarpið sem samþykkt var, þrátt fyrir mikil mótmæli í Berlín, mælir fyrir um samræmdar aðgerðir innanlands og er ætlað að takast á við togstreitu á milli alríkisstjórnarinnar og stjórna innan sextán ríkja Þýskalands. 

Merkel segir lögin nýtt vopn í baráttunni við heimsfaraldurinn. „Og ég er sannfærð um að við þurfum á þeim að halda,“ sagði Merkel í vikulegu hlaðvarpi sínu.

„Ef okkur tekst að draga hratt og örugglega úr smitum, verða auknar opnanir mögulegar í náinni framtíð,“ bætti hún við. 

Hertar aðgerðir munu taka gildi í dag, laugardag, á öllum svæðum Þýskalands með sjö daga nýgengi smita yfir 100 á hverja 100 þúsund íbúa, þar á meðal lokanir og næturútgöngubönn. 

Skólar þurfa aftur að snúa sér að fjarkennslu þar sem nýgengi er yfir 165 á hverja 100 þúsund íbúa. Átta af sextán ríkjum Þýskalands féllu þar undir í gær. Þá var meðalnýgengi smita 164 í ríkjum Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert