Taið er að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, muni í dag tilkynna viðurkenningu Bandaríkjanna á þjóðarmorði Tyrkja á Armenum á árunum 1915-1917, en Tyrkir hafa í áratugi barist gegn slíkri yfirlýsingu.
Yfirlýsing Bidens yrði í takt við loforð hans í kosningabaráttunni í fyrra, en hann sagði á Twitter fyrir ári að hann myndi styðja ályktun sem viðurkenndi þjóðarmorðin og að alþjóðleg mannréttindi yrðu hans helsta viðfangsefni.
Biden ræddi í gær við Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, í fyrsta skipti eftir að Biden tók við embætti. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu eftir samtal þeirra kom aðeins fram að þeir hefðu rætt um uppbyggileg tvíhliða samskipti á stækkandi samvinnugrundvelli, auk árangursríkrar meðhöndlunar á ágreiningi. Ekki var þó nánar tilgreint hver ágreiningurinn væri.
Erdogan sagði á fimmtudaginn aðstoðarmönnum sínum að „verja sannleikann gegn þeim sem styddu lygi um svokallað þjóðarmorð á Armenum“.
Leiðtogarnir virðast hins vegar hafa komið í veg fyrir frekari hnignun samskipta ríkjanna, en í framhaldi símafundarins var tilkynnt að þeir myndu hittast í Brussel í Belgíu á NATO-fundi í júní.
Jalina Porter, talsmaður innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, sagði við fréttamenn að búast mætti við tilkynningu sem tengdist þjóðarmorðinu í dag. Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í vikunni um mögulega yfirlýsingu Bidens að ef Bandaríkin vildu skaða samskipti sín við Tyrkland þá væri það þeirra ákvörðun.
Tyrkir hafa í marga áratugi haldið því fram að þjóðarmorðið, þar sem talið er að allt að ein milljón manns hafi látist, hafi ekki verið þjóðarmorð, heldur hluti af stærri átökum í tengslum við fyrri heimsstyrjöldina. Þrátt fyrir þrýsting frá Tyrklandi hafa nokkur lönd í gegnum tíðina viðurkennt atburðina sem þjóðarmorð, meðal annars Frakkland og Þýskaland.