Franska rannsóknarlögreglan yfirheyrði í dag þrjá grunaða um tengsl við túnískan mann sem sem stakk starfsmann lögreglu til bana nærri París í gær. Árásin er talin vera trúarlegs eðlis.
Morðið átti sér stað á lögreglustöð í Rambouillet, úthverfabæ um 60 kílómetra frá París. Morðið minnir á fjölda hnífaárása og hryðjuverka í Frakklandi undanfarin ár.
Sú látna var 49 ára kona, Stephanie M. Hún var tveggja barna móðir sem vann sem móttökustarfsmaður á lögreglustöð. Var hún stungin tvisvar í hálsinn í móttöku lögreglustöðvarinnar.
Meintur morðingi, hinn 36 ára Jamel Gorchene, hafði ekki áður verið rannsakaður af lögreglu. Hann var skotinn til bana á vettvangi.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, var staddur erlendis þegar árásin átti sér stað, í heimsókn í Tsjad. Tísti hann á Twitter að Frakkland myndi aldrei láta undan „íslömskum hryðjuverkamönnum“.
Macron heimsótti eiginmann Stephanie í dag eftir að hafa fundað með svæðislögreglustjóra í Rambouillet þar sem hann lýsti yfir stuðningi sínum, að því er kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Árásin, sem beint var að lögreglunni, er talin líkleg til að beina sjónum frekar að hættu sem fylgir íslömskum öfgahópum í Frakklandi þar sem stutt er í forsetakosningar í landinu.
Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, sagði í dag að hann myndi boða til ráðherrafundar í dag ásamt öryggismálayfirvöldum.
Saksóknari rannsakar málið sem hryðjuverk. Heimildir AFP-fréttastofu herma að árásarmaðurinn hafi kallað „Allahu Akbar“ eða „guð er mikill“ meðan á árásinni stóð.