Þúsundir mótmæltu í Sviss

Frá mótmælum í Sviss í mars.
Frá mótmælum í Sviss í mars. AFP

Þúsundir mótmælenda héldu út á götur í austurhluta Sviss í dag til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum gegn Covid-19. Varla var andlitsgrímu að sjá og þrömmuðu mótmælendur um bæinn Rapperswil-Jona með svissneska fánann á lofti og öskruðu „frelsi“.

Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar í St. Gallen-héraði, að um fjögur þúsund manns hefðu mætt á mótmælin, sem ekki hafði fengist leyfi fyrir. 

Ekki höfðu neinar tilkynningar um ofbeldisverk tengd mótmælunum borist. Mótmælin eru þau nýlegustu í öldu mótmæla sem skipulögð eru af hópi sem kallast Stiller Protest (þögul mótmæli).

45 manns í sólarhrings útlegð

Yfirvöld segjast hafa reynt að afstýra mótmælum. Umferð hafi verið stýrt frá miðbænum þar sem þau voru boðuð, með það fyrir augum að mótmælin væru ólögleg. Ákvörðun hafi þó verið tekin um að stöðva ekki mótmælin með valdi, vegna ótta við að það myndi æsa enn í múgnum. 

Tveir voru í haldi lögreglu í skamma stund og 45 var gert að yfirgefa bæinn í sólarhring. Einnig hafði fullri rútu fólks sem hélt í átt að mótmælunum verið snúið við.

Mótmælendur saka stjórnvöld í Sviss um einræðistilburði við að beita sóttvarnaráðstöfunum. Í Sviss hefur verið slakað á aðgerðum gegn Covid-19, sérstaklega þegar kemur að íþróttamannvirkjum og útisvæðum veitingastaða og kráa sem opnuðu dyr sínar á ný fyrr í þessari viku. Mótmælendur segja viðspyrnuna ganga of hægt. 

Í Sviss hafa 650 þúsund greinst með Covid-19 og nærri 10 þúsund látist vegna faraldursins. Um tíu prósent Svisslendinga hafa verið bólusettir við veirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert