Frakkar og Bandaríkjamenn senda aðstoð

Bandaríkin munu þegar í stað senda til Indlands hráefni til að framleiða bóluefni, lyf, veirupróf, öndunarvélar og hlífðarfatnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem nú glímir við verulega fjölgun Covid-19 smita. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu í dag. 

Farið var yfir aðrar aðgerðir sem gripið verður til til að styðja við Indland. Þar var ekki talað um að senda bóluefnaskammta frá AstraZeneca. Bandaríkin liggja nú á um 30 milljón skammta lager af AstraZeneca-bóluefni en notkun efnisins hefur verið frestað á meðan niðurstaðna er beðið um frekari rannsókn á bóluefninu. 

Frakkar munu senda súrefnisbirgðir til Indlands sem senn eru á þrotum samkvæmt tilkynningu frá forseta Frakklands í dag. Öndunarvélar verða einnig sendar.

Þá hafa Þjóðverjar og Bretar brugðist við hjálparkalli Indlands, sem nú glímir við nýtt afbrigði Covid-19-veirunnar sem dreifist hratt á meðal hinnar fjölmennu þjóðar. Tæp 350.000 smit voru greind aðeins í dag og 2.767 dauðsföll af völdum veirunnar voru tilkynnt í dag.  

Evrópusambandið skipuleggur einnig hjálparaðgerðir gagnvart Indlandi að sögn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Bólusett í Mumbaí í Indlandi.
Bólusett í Mumbaí í Indlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert