Lögreglan með bakdyraaðgang í tíu ár

Norska lögreglan hefur haft upplýsingar um milljónir farþega Norwegian um …
Norska lögreglan hefur haft upplýsingar um milljónir farþega Norwegian um norska flugvelli. Nú stendur til að veita henni réttindin sem hún tók sér sjálf. AFP

Lögreglan í Noregi hefur um tíu ára skeið haft aðgang að miðasölukerfi flugfélagsins Norwegian og þannig getað skoðað persónuupplýsingar um alla farþega án vitneskju flugfélagsins. Framkvæmdin er ólögleg, segir persónuvernd þar í landi.

Það var flugfélagið sjálft sem hafði samband við Persónuvernd í maí 2019 þegar upp komst um njósnir lögreglunnar, en í kjölfarið lét lögreglan af þessu.

Rannsókn Persónuverndarinnar hefur einnig leitt í ljós að fjöldi flugfélaga hefur reglubundið sent lögreglunni lista yfir farþega sína að hennar beiðni, jafnvel í tölvupósti án þess að gögnin séu dulkóðuð með nokkrum hætti. Persónuverndin segir að ekki sé leyfi fyrir slíkum sendingum, þar sem í lögum segir að lögregla þurfi sérstaklega að biðja um tilteknar upplýsingar. Þessu er lögreglan ósammála.

Dómsmálaráðuneyti Noregs vinnur nú að frumvarpi sem mun gera flugfélögum skylt að deila upplýsingum um alla farþega með lögreglunni og nýrri stofnun, sem ætlað er að fylgjast með fólksflutningum inn og út úr landinu, en norska ríkisútvarpið greindi frá þessum áformum í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert