Rannsaka mannabein í Lier

Gjellebekkmyrene í Lier er svæði milli E18-brautarinnar og Gamle Drammensvei …
Gjellebekkmyrene í Lier er svæði milli E18-brautarinnar og Gamle Drammensvei og hefur verið friðland frá 1978. Hafa þar fundist ýmsar sjaldgæfar plöntutegundir auk þess sem mannabein fundust þar fyrir helgina. Ljósmynd/Markadatabasen/Odd Tore Saugerud

Lögreglan í suðausturumdæminu í Noregi hefur slegið því föstu að bein, sem vegfarandi fann og tilkynnti um síðdegis á föstudag í skóglendi í Lier, tæpa 40 kílómetra vestur af Ósló, séu jarðneskjar leifar manneskju og er nú unnið að því að greina aldur og kyn þess sem þar liggur.

„Allt bendir til þess að beinin séu gömul,“ segir Magnus Rindal Fredriksen, lögmaður lögregluumdæmisins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og vísar til þess að líklegt sé að beinin hafi legið lengi á fundarstað sínum, ekki aldurs manneskjunnar. Geti þar með verið um fornleifafund að ræða fremur en hugsanlegt sakamál.

Takmarkaðar upplýsingar

Athafnaði tæknifólk sig fyrst um sinn í tjaldi sem slegið var upp yfir beinunum, áður en þau voru flutt á brott, og segir Fredriksen nú standa fyrir dyrum að kanna hvort greina megi erfðaefni í beinunum sem nýta mætti til að varpa frekari ljósi á fundinn auk þess að kanna hvort þar liggi hugsanlega einhver sem finna megi á skrám lögreglu yfir horfna einstaklinga á svæðinu.

„Við höfum mjög takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er. Það er fyrst þegar við vitum aldur, kyn og hve lengi beinin hafa legið sem við getum farið að taka ákvarðanir um næstu skref í rannsókninni,“ segir hann.

Höfuðkúpa og tennur auðvelda greiningu

Per Holck, prófessor emeritus í líffærafræði, er þrautreyndur á sviði beinarannsókna. „Mikilvægt er að finna aldur og kyn að svo miklu leyti sem það er hægt,“ segir Holck við NRK. „Þá er þróun beinanna skoðuð. Aldursgreining beina barna og ungs fólks er auðveld og oft nákvæm. Málið vandast með eldra fólk, einkum og sér í lagi ef eingöngu er um bein að ræða (n. knokler). Mun auðveldara er að vinna með höfuðkúpu eða tennur,“ útskýrir prófessorinn.

„Oftast eru það réttarmeinafræðingarnir sem kveða upp úr með hvort um mannabein er að ræða,“ segir Per Angel, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og stjórnandi kennslahóps norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, ID-gruppen eins og hann kallast.

„Komi í ljós að um manneskju er að ræða er gengið hreint til verks. Þá getur verið um afbrotavettvang að ræða og þá vill maður varðveita allt sem þar er að finna, hluti, sorp, leifar af fötum, allt sem ekki er frá náttúrunnar hendi getur tengst málinu. Sé um mannabein að ræða koma öll mannshvarfsmál á svæðinu til greina,“ segir Angel.

Friðland frá 1978

Engum fingraförum sé að dreifa sé aðeins um bein að ræða og þá geti fatnaður og skartgripir gefið verðmætar vísbendingar um persónu látinnar manneskju. DNA-rannsóknir komi svo auðvitað að miklu gagni en þar verði örðugra um vik eftir því sem beinin eru eldri.

Fundarstaðurinn er í Gjellebekkmyrene, skammt frá afrein númer 22 af E18-brautinni, á landi sem hefur verið friðlýst frá því 1978, en þar hafa margar fágætar plöntutegundir fundist. Landeigandinn, Per Haarberg, segir í samtali við dagblaðið Drammens Tidende, að svæðið hafi áður verið nýtt sem geymslustaður fyrir meðal annars afgangsefni frá byggingarframkvæmdum. Nú er þar hins vegar vinsælt útivistarsvæði sem íbúar Lier nýta meðal annars til gönguferða.

NRK

VG

Nettavisen

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert