Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti gætu fundað í fyrsta sinn í júní. Fréttaveitan AFP hefur eftir Júrí Ushakov, háttsettum embættismanni úr rússneska stjórnkerfinu, að undirbúningur standi nú yfir.
Fyrr í þessum mánuði bauð Biden fram slíkan fund og lagði til að hann yrði haldinn í hlutlausu ríki, en stjórnvöld í Finnlandi og Austurríki hafa sýnt því áhuga að hýsa fundinn. Hvorugt ríkið er í Atlantshafsbandalaginu.
Hvíta húsið hefur staðfest að Biden ferðist til Evrópu í júní, fyrst til að sækja fund leiðtoga G7-ríkjanna í Bretlandi og síðar til að funda með leiðtogaráði Evrópusambandsins í Brussel. Ekkert hefur þó verið staðfest um hugsanlegan fund með Rússlandsforseta.
Þegar hefur verið greint frá því að utanríkisráðherrar ríkjanna tveggja muni funda í Reykjavík í næsta mánuði en þeir munu báðir sækja fund norðurskautsráðsins 19.-20. maí. Verður það í fyrsta sinn sem ráðherrar ríkjanna funda frá því Joe Biden tók við embætti forseta í janúar.