Deyja úr Covid á tröppum sjúkrahúsa

Sjúkrahús í mörgum indverskum borgum þurfa að vísa fárveikum Covid-19-sjúklingum í burtu þar sem engin rúm eru laus og súrefnisbirgðir á þrotum. Fimmta daginn í röð var sett nýtt met í dag hvað varðar fjölda nýrra staðfestra smita. Nú voru þau tæplega 353 þúsund talsins. 

Vegna ástandsins hafa margir þurft að leita á náðir svartamarkaðsbraskara til að kaupa súrefni og annan búnað tengdan súrefnisgjöf auk lyfja. Þetta veldur því að verð hefur hækkað upp úr öllu valdi á slíkum lífsnauðsynlegum búnaði. 

Anshu Priya reyndi að fá tengdaföður sinn lagðan inn á sjúkrahús í Delí eða úthverfum hennar án árangurs. Líðan hans versnar hratt og því eyddi hún nánast öllum sunnudeginum í að reyna að útvega honum súrefniskút. Sú leit bar ekki árangur fyrr en hún leitaði á náðir svarta markaðsins. Þar kostaði kúturinn 50 þúsund rúpíur, 84 þúsund krónur, sem er gríðarlega há fjárhæð á Indlandi. Slíkur kútur kostar venjulega 6 þúsund rúpíur. Tengdamóðir hennar er einnig með Covid og á í öndunarerfiðleikum en ekki var möguleiki á að útvega annan súrefniskút á svarta markaðnum í gær. 

Frétt BBC

Svipaðar sögur heyrast nú frá fjölmörgum borgum Indlands þar sem fjölskyldur eru í örvæntingarfullri leit að lækningatækjum og búnaði fyrir ættmenni. Margir reyna að sameinast um kaup á súrefniskútum og öðru en langflestir íbúar Indlands hafa ekki möguleika á að kaupa slíkan búnað. 

Margar fréttir hafa borist af fólki sem hefur dáið á tröppum sjúkrahúsanna þar sem það hafði ekki ráð á að kaupa nauðsynleg lyf eða súrefni á svarta markaðnum. 

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að grípa strax til aðgerða og útvega Indverjum búnað til framleiðslu á bóluefni sem og skimunarbúnað, öndunarvélar og varnarbúnað. Fleiri vestræn ríki hafa einnig tilkynnt um að þau muni veita Indverjum aðstoð, þar á meðal Bretland, Kanada, Þýskaland og Frakkland. 

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í gær kemur fram að búið sé að útvega þennan búnað og hann sendur strax til Indlands. Ekki liggur fyrir hvort Bandaríkin muni einnig senda skammta af bóluefni AstraZeneca til Indlands líkt og Anthony Fauci, helsti ráðgjafi bandarískra yfirvalda í sóttvörnum, lagði til í viðtali við ABC Sunday.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert