Fullbólusettir boðnir velkomnir

Bandarískir ferðamenn sem eru fullbólusettir verða velkomnir til ríkja ESB …
Bandarískir ferðamenn sem eru fullbólusettir verða velkomnir til ríkja ESB í sumar. AFP

Fullbólusettir bandarískir ferðamenn fá að koma til ríkja Evrópusambandsins í sumar. Þetta kemur fram í viðtali við forseta framkvæmdastjórnar ESB, Ursulu von der Leyen, í New York Times í gær.

Lokað hefur verið fyrir ferðalög Bandaríkjamanna til ríkja ESB í meira en eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Ursula von der Leyen segir ástæðuna fyrir breytingunum þá að vel hefur gengið að bólusetja í Bandaríkjunum. Unnið er að gerð samkomulags milli Bandaríkjanna og ESB um gerð bólusetningarvottorðs. 

Hún segir að þar sem bólusett er í Bandaríkjunum með bóluefnum sem hafa verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu geri ferlið auðveldara, það er að heimila frjálsa för og ferðalög Bandaríkjamanna til ríkja ESB.

Von der Leyen segir að öll 27 aðildarríki ESB muni samþykkja skilyrðislaust alla þá sem eru bólusettir með bóluefnin sem samþykkt eru af Lyfjastofnun Evrópu. Þau bóluefni sem notuð eru í Bandaríkjunum eru Moderna, Pfizer-BioNTech og Johnson & Johnson (Janssen).

Ekki kemur fram í viðtalinu nákvæm dagsetning á því hvenær breytingin tekur gildi.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert