Annað árið í röð er San Fermin-hátíðinni í Pamplona aflýst vegna kórónuveirufaraldursins en áður en kórónuveirufaraldurinn kom upp hafði nautahlaupið farið fram árlega í áratugi.
Enrique Maya, borgarstjóri Pamplona, greindi frá þessu í morgun og sagði ákvörðunina þungbæra.
Hátíðin er venjulega haldin í júlí og sagði Maya að áhættan á því að veirufaraldurinn myndi brjótast út væri of mikill vegna þess að ekki yrði búið að bólusetja nógu marga og oft skapaðist mikill troðningur í nautahlaupinu.
Sagt er að viðburðurinn eigi rætur að rekja til 14. aldar þegar bændur fluttu nautgripi frá ökrunum niður á torg til þess að selja þá. Bændur áttu það til að hlaupa á undan nautgripunum til þess að hvetja þá áfram.
Dýraverndunarsinnar hafa verið mjög ánægðir með þessa ákvörðun þar sem dýr munu ekki þjást. Þeir segja að hátíðin snúist um meira en bara nautahlaupið og að það væri gaman að njóta hátíðarinnar án þess að dýr eða menn meiðist.