Ítalir hópuðust á bari, veitingahús og í kvikmyndahús í kjölfarið á tilslökunum á takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Mario Draghi, forsætisráðherra landsins, kynnti einnig efnahagsaðgerðir til að styrkja stöðu landsins eftir kreppu síðasta árs.
Ítalir vonast til þess að tilslakanir sem tóku gildi í dag séu upphafið að því sem kallast gæti eðlilegt sumar.
Draghi viðurkenndi að ákveðin áhætta fælist í tilslökunum vegna faraldursins en daglega látast nokkur hundruð manns af völdum veirunnar á Ítalíu; 301 í gær samkvæmt hagtöluvefnum Worldometers. Alls hafa rúmlega 119.000 látist af völdum veirunnar á Ítalíu.
„Loksins,“ sagði Daniele Vespa, 26 ára þjónn í höfuðborginni Róm. „Þetta er upphafið að því að snúa aftur til hins eðlilega,“ bætti hann við í samtali við fréttamann AFP í ítölsku höfuðborginni.
Bíóhús, leikhús og tónleikasalir geta tekið á móti 50% af leyfilegum gestafjölda á sýningar og þá má opna sundlaugar og heilsuræktarstöðvar aftur í júlí.
Draghi hefur verið undir mikilli pressu að slaka á takmörkunum en fjölmenn mótmæli hafa meðal annars verið vegna þeirra.
Ítalir munu njóta góðs af 750 milljarða evra björgunarsjóði Evrópusambandsins sem ætlað er að koma efnahagslífinu í gang eftir kórónuveirukreppuna.
Ríkisstjórn Ítalíu þarf að skila áætlun um hvernig nota skuli þá fjármuni sem landinu er skaffað til stjórnar sambandsins í lok vikunnar.
Að sögn Draghi hyggst stjórnin styrkja innviði og hjálpa ungum konum og yngra fólki sem hefur misst vinnuna að komast aftur á vinnumarkaðinn. Sjónum verður sér í lagi beint að fólki í suðurhluta landsins.