Texasbúinn Caron McBride hefur síðastliðin 20 ár átt yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik og hefur handtökuheimild gilt á hendur henni allan þann tíma – allt vegna VHS-spólu sem hún gleymdi að skila fyrir 22 árum.
VHS-spóla sem hafði að geyma heila þáttaröð af bandaríska grínþættinum Sabrina the Teenage Witch var leigð í hennar nafni árið 1999 en gleymst hefur að skila henni, með fyrrgreindum afleiðingum. BBC greinir frá.
Auk þess að hafa átt yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik og gilda handtökuheimild segir McBride að í rúm 20 ár hafi umsóknum hennar um hin ýmsu störf verið hafnað vegna þessa. Í hvert skipti skildi hún ekkert hvers vegna umsóknum hennar var hafnað, hvað þá þegar henni var tjáð að hún ætti yfir höfði sér ákæru – ákæru sem McBride kannaðist aldrei við að hafa verið kynnt.
Upp komst um málið þegar McBride reyndi á dögunum að sækja um nafnabreytingu á ökuskírteini sínu, enda nýgift. Eftir bakgrunnsathugun af hálfu starfsmanns Texas-ríkis var henni tjáð að hún ætti yfir höfði sér ákæru, rétt eins og McBride var vön, en þegar í ljós kom hvers vegna hún var ákærð átti McBride ekki orð.
„Ég varð að biðja hana um að endurtaka það sem hún sagði við mig, af því ég hugsaði bara að þetta væri brjálæði,“ segir McBride.
„Þessi stelpa er að grínast í mér, er það ekki? Hún var ekki að grínast í mér.“
„Þetta er háalvarlegt mál. Þetta hefur valdið mér og fjölskyldu minni miklum fjárhagslegum vandræðum vegna þeirra starfa sem ég hef ekki fengið.“
Ákæran á hendur McBride hefur nú verið felld niður en McBride sjálfri finnst henni ekki hafa verið bætt tjónið. Hún heldur að maður sem hún bjó með seint á síðustu öld hafi leigt myndina fyrir dætur sínar og gleymt að skila henni.
Meðal þeirra sem brugðist hafa við málinu á samfélagsmiðlum eru leikarar úr gamla grínþættinum, Sabrina the Teenage Witch. Meðal annars segir Carolie Rhea, stjarna úr þættinum, að meðleikarar hennar ættu að árita handrit að þáttunum og gefa henni, til þess að hjálpa henni.
McBride kveðst ekki einu sinni hafa horft á spóluna örlagaríki: Ekki alveg minn tebolli, segir hún.