Slapp loks úr kínverskum raunveruleikaþætti

Vladislav Ivanov er frá borginni Vladivostok við landamæri Rússlands að …
Vladislav Ivanov er frá borginni Vladivostok við landamæri Rússlands að Kína og átti að starfa sem túlkur við þáttinn vegna tungumálakunnáttu sinnar. AFP

Rússneskur karlmaður slapp loks úr kínverskum raunveruleikaþætti eftir þriggja mánaða þátttöku þar sem hann biðlaði ítrekað til áhorfenda að kjósa sig úr þættinum.

Vladislav Ivanov, 27 ára Rússi frá borginni Vladivostok við landamæri Rússlands og Kína, var kosinn úr raunveruleikaþætti um helgina þar sem setja átti saman nýtt kínverskt strákaband.

Ivanov talar mandarín, helstu mál­lýsku kín­versku, og átti fyrst að kenna öðrum keppendum tungumálið. Hann hafi verið plataður í þáttinn vegna þess að framleiðendum þótti hann svo fagur.

„Þeir spurðu hvort ég vildi hefja nýtt líf,“ sagði Ivanov í þættinum. Samkvæmt frétt AFP virtist hann sjá eftir þátttöku sinni nánast samstundis en gat ekki hætt við án þess að rifta samningi og greiða háa sekt.

Áhorfendur urðu varir við áhugaleysi hans í þáttunum auk þess sem hann hvatti fólk til að kjósa sig úr þættinum. Þeim ellefu sem standa uppi sem sigurvegarar er gert að stofna strákaband.

Ivanov rétt slapp við strákabandið en hann var ekki einn þeirra ellefu sem unnu sér þann rétt í úrslitaþættinum um helgina. „Loksins slapp ég,“ skrifaði hann meðal annars á samfélagsmiðla að því loknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert