Mikil reiði hefur gripið um sig meðal tugþúsunda Indverja eftir að stjórnvöld þar í landi skipuðu samfélagsmiðlinum Twitter að fela allar færslur fólks sem gagnrýnir viðbragð stjórnvalda við síversnandi kórónuveirufaraldri þar í landi. BBC greinir frá.
Talsmaður Twitter hefur staðfest að miðillinn hafi fjarlægt færslur fólks vegna þessa. Nýgengi smita í landinu hefur farið ört vaxandi á undanförnum vikum og sjúkrahús landsins horfa fram á súrefnisskort, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir Covid-sjúklinga.
Í gær greindust 352.991 kórónuveirusmit á Indlandi og 2.812 manns létust vegna veirunnar. Það er hæsta dagshlutfall frá upphafi faraldursins í nokkru landi.
Twitter tilkynnti á vefsíðu gagnagrunnsins Lumen, sem skrásetur tilraunir ríkja til þess að ritskoða net- og samfélagasmiðla, að indversk stjórnvöld hefðu gripið til þess neyðarúrræðis að skipa Twitter að fjarlægja færslur um viðspyrnu þeirra gegn faraldrinum.
Ekki kom fram í tilkynningu frá netrisanum hvers kyns efni og hvers kyns færslur hefðu verið fjarlægðar af netþjónum þeirra. Fjölmiðlar á Indlandi greina frá því að tíst stjórnmálamanns í Vestur-Bengal-héraði hafi verið fjarlægt, þar sem hann sagði Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, vera ábyrgan fyrir dauðsföllum af völdum veirunnar.
Þá er greint frá því að tíst vel þekkts leikara á Indlandi hafi verið fjarlægt, þar sem hann sakaði Modi um að hafa haldið fjölmenna kosningafundi á meðan veiran geisaði sem aldrei fyrr í landinu.