Aserbaísjan opnar umdeildan almenningsgarð

Átök Asera og Armena hafa skilið eftir sig djúpstæð sár …
Átök Asera og Armena hafa skilið eftir sig djúpstæð sár í sjálfstjórnarhéraðinu Nagornó-Karabak. AFP

Stjórnvöld í Aserbaísjan hafa opnað svokallaðan „herfangagarð“ í höfuðborginni Bakú. Í almenningsgarðinum eru til sýnis hergögn sem aserski herinn hefur gert upptæk eftir átök hans við Armena um sjálfstjórnarhéraðið Nagornó-Karabak í fyrra.

Í almenningsgarðinum má sjá m.a. hjálma, vopn og skriðdreka sem voru í eigu armenska hersins sem og uppstilltar gínur í armenskum einkennisbúningum. Fyrir framan innganginn að almenningsgarðinum er veggmynd gerð úr armenskum bílnúmerum með áletrunina „Karabak er okkar“ á asersku.

Armensk stjórnvöld hafa ásakað Asera um að niðurlægja fórnalömb átakanna með opnun almenningsgarðsins. Asersk stjórnvöld hafa mótmælt þessari ásökun og telja sig eiga rétt á að varðveita hernaðarsigur sinn með þessum hætti.

Ónýtur og yfirgefinn armenskur skriðdreki í héraðinu Nagornó-Karabak. Ef til …
Ónýtur og yfirgefinn armenskur skriðdreki í héraðinu Nagornó-Karabak. Ef til vill er hann til sýnis í Bakú. AFP

Um 5.000 manns létust í hernaðarátökum Armena og Asera um héraðið í fyrra áður en vopnahlé var und­ir­ritað í nóvember. Ríkin tvö hafa deilt um yfirráð yfir héraðinu um áraraðir, en Sovétmenn fólu Aserbaísjan stjórn héraðsins.

Árið 1988 braust út stríð á milli ríkjanna eftir að íbúar héraðsins, sem eru Armenar að meirihluta, kusu í atkvæðagreiðslu að sameinast Armeníu. Stríðinu lauk 1994 og fengu armenskir aðskilnaðarsinnar stjórn yfir héraðinu fram að innrás Asera í fyrra. Rússneskir friðarliðar standa nú vörðinn á átakasvæðinu en talið er að aðeins sé tímaspursmál þar til átök á milli ríkjanna brjótast út að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert