Rannsókn er hafin á bandarískum lögreglumönnum sem sjást á myndskeiði hæðast að konu á áttræðisaldri með heilabilun eftir að hafa handtekið hana. Konan, Karen Garner, er 73 ára og var handtekin 26. júní í fyrra eftir að hafa yfirgefið verslun Walmart í Colorado án þess að greiða fyrir vörurnar.
Myndskeiðið sýnir lögreglumennina horfa á myndskeið af handtökunni og sjást þeir gera grín að því þegar öxl hennar fer úr lið þegar þeir beita hana hörku við handtökuna. Að sögn lögmanns Garner var hún einnig hrufluð á olnboga eftir handtökuna.
Myndskeiðið sem lögmaðurinn birti í gær er tekið á lögreglustöðinni í Loveland sama dag og konan var handtekin. Meðal annars sést Garner í fangaklefa sitjandi skelfingu lostin handjárnuð á bekk á meðan lögreglumennirnir gera grín að atvikinu.
Lögmaður Garner segir að hún hafi verið látin dúsa í sex klukkutíma í fangaklefa án læknisaðstoðar þrátt fyrir að hafa grátið af kvölum eftir harkalega handtöku. Sarah Schielke, lögmaður Garner, segir handtökuna jafnast á við pyntingar.
„Þeir brugðust Karen Garner," segir Schielke í fréttatilkynningu. „Þeir brugðust samfélaginu og þeir gerðu þetta allt í mynd.“
Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Loveland kemur fram að sakamálarannsókn sé hafin á atvikinu í síðustu viku og að lögreglan muni ekki tjá sig um málið á meðan hún stendur yfir. Einn lögreglumaður hefur verið sendur í leyfi og tveir settir í önnur verkefni.
Þegar myndskeið úr líkamsmyndavélum lögreglu voru birtar fyrr í mánuðinum greip um sig mikil reiði meðal almennings. Þar sjást tveir lögreglumenn stöðva Garner þar sem hún er að tína blóm í vegkanti eftir að hafa yfirgefið verslun Walmart í bænum Loveland, 80 km norður af Denver.
Myndskeið úr öryggismyndavélum Walmart sýna starfsfólk verslunarinnar stöðva Garner og taka af henni vörur sem hún hafði tekið með út úr búðinni án þess að greiða fyrir þær. Virði þeirra er rúmir 13 bandaríkjadalir, sem svarar til 1.600 króna. Má þar nefna gosdósir og þvottaefni.
Þegar Garner gengur frá lögreglumönnunum henda þeir henni til jarðar, handjárna og reka síðan andlit hennar í vélarhlíf lögreglubifreiðarinnar. Fætur hennar eru síðan festir saman með plastböndum.