Hafna beiðnum um innflutning á Spútnik V

Antonio Barra Torres, forseti Anvisa, er ekki alveg sannfærður um …
Antonio Barra Torres, forseti Anvisa, er ekki alveg sannfærður um öryggi og virkni Sputnik V og vill sjá frekari gögn um það. AFP

Heilbrigðiseftirlit Brasilíu hefur hafnað beiðni nokkurra ríkja í landinu um innflutning á rússneska bóluefninu Spútnik V sem notað er gegn Covid-19. Eftirlitið segir að það hafi ekki undir höndum viðeigandi gögn sem staðfesti öryggi og virkni bóluefnisins.

„Við munum aldrei leyfa bólusetningu milljóna Brasilíumanna án þess að efnið sé sannprófað hvað varðar öryggi og virkni þess, eða í það minnsta að það sé staðfest að ávinningurinn af efninu vegi þyngra en áhættan,“ sagði Antonio Barra Torres, forseti brasilíska heilbrigðiseftirlitsins Anvisa.

Eftirlitið hefur gefið það út að sérfræðingar þess hafi verið óvissir um ákveðna þætti bóluefnisins. Það hefur enn ekki verið samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu eða Mat­væla- og lyfja­stofn­un Banda­ríkj­anna (FDA). 

Sýnir 90% virkni

Í síðasta mánuði fékk Anvisa beiðni um neyðarleyfi fyrir bóluefnið. Eftirlitið hefur ekki gefið út hvaða upplýsingum nákvæmlega það þurfi á að halda til þess að geta skorið úr um öryggi og virkni bóluefnisins. 

Rússland skráði Spútnik V sem bóluefni gegn Covid-19 í ágúst síðastliðnum, áður en stórar klínískar rannsóknir höfðu verið framkvæmdar. Það olli vísindamönnum víða um heim áhyggjum en síðari rannsóknir hafa leitt í ljós mjög jákvæðar niðurstöður. 

Læknatímaritið Lancet birti t.a.m. niðurstöður sem sýndu að bóluefnið væri öruggt og hefði meira en 90% virkni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert